Vandrataður vegur

Það er fróðlegt að heyra í fréttum um það hvernig hagsmunaárekstrar og græðgi er komin upp í sambandi við skilanefndir bankana. Þetta ber allt að sama brunninum, ég fyrst og síðan rest. Auðvitað þarf að borga hæfu fólki vel en það verður líka að vera spurning um hvað er hægt og réttlætanlegt að borga. Enn og aftur sýnir það sig hvað þetta þjóðfélag okkar er lítið og menn blindir á hagsmunaárekstra, tengsl og hvað sé rétt og rangt í því sambandi.

Stundum vill fólk geta sagt "I told you so". Danirnir, og fleiri, sögðu þetta eftir að bankakerfið íslenska hrundi. Ég sagði þetta eftir að lesa fréttirnar með Borgarahreyfinguna. Sundurleitur stjórnlaus hópur sem fór af stað með góðar meiningar en á langt í land með að vera það stjórnmálaafl sem upp var lagt með. Ég vil þó taka það fram að ég hef persónulega ekkert á móti þessu fólki og er að mörgu leyti sammála því sem þeir lögðu upp með en þeim vantar leiðtoga.

 Ég fór í "túristaferð" með spænska vini mína um daginn. Eftir hring í Reykjavík og nágrenni með tilheyrandi útsýni á hinar ofurflottu verslunarmiðstöðvar okkar sagði einn "hvað búa aftur margar milljónir í Reykjavík?" Hver hefði getað tekið í taumana með þessa vitleysu? Stjórnvöld eða sveitarfélög? Svar mitt er nei. Það eru bankarnir sem fjármögnuðu þetta sem bera mestu ábyrgðina og eru hin eðlilega bremsa í frjálsu hagkerfi. Peningar eiga ekki að streyma út úr bönkum í fjárfestingar sem standa ekki undir eðlilegu arðsemismati því að það þýðir bara eitt að skuldunautar munu, eigi þeir ekki mikið auka laust fé á kantinum fyrir misheppnaðar fjárfestingar, ekki geta greitt af lánunum sem varð raunin að lokum í ansi mörgum tilfellum og fer þeim fjölgandi, því miður.

 Icesave málið er án efa eitt það allra erfiðasta sem þessi þjóð hefur staðið í frammi fyrir. Hvernig á þjóðin að skilja að hún eigi að taka á sig klyfjar sem eru tilkomnar vegna einkafyrirtækis sem missti fótanna, en bankar eru bara engin venjuleg fyrirtæki. Hvernig á fólk að skilja að þessir menn, sem settu Icesave í gang, hafi á síðasta ári haft tugi milljóna í laun á mánuði og kinnroðalaust finnist í lagi að þjóðin taki á sig fjárhagslegar skuldbindingar vegna slælegrar frammistöðu þeirra í starfi. Að vísu verð ég að segja að eitt það fyrsta sem ég lærði í viðskiptum var ef þú vilt fá meiri arðsemi á peningana þína þá verðurðu að taka meiri áhættu. Þeir Bretar og Hollendingar sem ákváðu að leggja inn á Icesave gerðu það ekki út af nafninu eða ást við Ísland heldur út af töluvert betri innlánsvöxtum. Ef ég væri með tugi eða hundruð milljóna undir minni stjórn og þessir peningar væru inn á reikningi hjá íslenskum banka á vöxtum íslenska markaðarins myndi ég hugsa mig um tvisvar ef ég myndi færa þetta fé yfir á útbú frá erlendum banka frá smáríki þrátt fyrir hærri innlánsvexti hjá erlenda bankanum, en það er bara ég. Ég þekki ekkert til Hollendinga en Bretar hafa alltaf verið frægir fyrir íhaldssemi og því skil ég ekki hvernig stóð á því að meira segja sveitafélög bunuðu peningum inn á Icesave í Bretlandi. Ef dæminu væri snúið við, og við værum í sporum þessara innistæðueigenda, myndum við að sjálfsögðu vilja fá okkar til baka, það er eðlilegt. Það sem er ekki eðlilegt er að ef það er vafi í svona stóru máli, eins og virðist vera, að ekki sé hægt að fá þriðja aðila til að skera úr þeim ágreiningi, til þess eru dómstólar.

Menn spyrja stundum hvar allir peningarnir séu. Sumt af þeim er sem betur fer inn í eignasöfnum föllnu bankana og þeirra nýju en ansi mikið gufaði upp með ónýtum pappírum sem aldrei munu innheimtast. Hluti þeirra getur verið falinn erlendis en ég hef þá trú að allar slóðir eigi eftir að finnast og að réttlætið muni sigra að lokum, þrátt fyrir að það muni taka sinn tíma. Þegar glæpamennirnir sem sviku fé út úr Íbúðalánasjóð voru handteknir sagði fólk "nú nú en hvað með stóru glæpamennina í kringum bankahrunið"? Skiljanleg pæling en málið er að annað er tiltölulega auðvelt og liggur nokkuð ljóst fyrir en hitt er hrikalega flókið með allskyns flækjum og fléttum í formi tugi eða hundruða eignarhaldsfélaga. Þar sem við búum í réttarríki á hver maður sinn rétt og er saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð og sönnunarbyrðin hvílir á saksóknara. Það er gott að eiga "gullkistur" en ég myndi samt frekar skila gullinu og gera atlögu að því að fá æruna mína til baka, en það er bara ég.

Mbk. Sigurjón Sigurðsson

 

 

 


Ibiza

Það er komið talsvert síðan að ég hef bloggað frá Spáni og núna sit ég á Café Sidney á Ibiza og finn smá bloggþörf hjá mér sem ég hef ákveðið að fylgja eftir.

Ég er búinn að vera á þessari dásamlegu eyju, Ibiza, síðan í maí. Meginhluta tímans hef ég verið að sinna starfi fararstjóra fyrir útskriftarhópa sem hingað hafa komið með Trans Atlantic. Ég var í þessu starfi hér fyrir allnokkru síðan, 88-91, og síðan þá hefur talsvert breyst. Helsta breytingin er þó hvað innviðir eyjunnar eru miklu betri en þeir voru, þ.e. gatnakerfi og slíkt, sem er til bóta. Annað sem er þó ekki jafn jákvætt er hve allt virkar fáránlega dýrt hérna með núverandi stöðu á íslensku krónunni. Hér áður fyrr þótti ekki tiltökumál að elta uppi bestu „ressana“ og diskótekin öll kvöld en núna velja farþegarnir vandlega hvar skal eyða evrunum. Farþegarnir eru annars alveg eins og þeir voru, skemmtilegir krakkar sem eru komnir til að skemmta sér í góðra vina hópi og kynnast nýjum hlutum. Flestir haga sér vel en alltaf eru örfáir sem virðast sífellt vera að „lenda“ í veseni. Ekkert alvarlegt gerðist þó hjá þessum hópum þrátt fyrir að nokkrir aðilar hafi verið nálægt gistingu hjá hinu opinbera.

 

Spánverjar fara ekki varhluta af hinni margumræddu heimskreppu og í fréttum hér virðist sem þeim finnist þeir vera að lenda landa verst út úr þessu, ef þeir bara vissu...................

Helsta vandamálið hér er atvinnuleysi sem náði hæst c.a. 18% en hefur nú lækkað um rúm prósent. Verðhjöðnun var í landinu í apríl og maí um tæpt prósent. Helsti atvinnuvegur þjóðarinnar er ferðamannaiðnaðurinn og er tæplega 12% minnkun á ferðamönnum til Spánar á milli ára. Um 18 milljónir hafa heimsótt Spán það sem af er ári og mesta fækkunin er í Bretum en hún er um 20% enda hefur breska pundið veikst gagnvart evru. Ég skoðaði þessa veikingu og hún er c.a. 20% frá árinu 2007 á meðan krónan hefur veikst um 100% gagnvart evru. Spánverjar eru að leita allra leiða út úr kreppunni og sósíalistar, sem eru hér við völd, vilja hækka skatta og spara í rekstri hins opinbera, hljómar kunnuglega. Flokkur valdhafa hér, PSOE (Partido Socialista), reyndi í gær að koma frumvarpi um skattahækkanir í gegnum þingið en það frumvarp var naumlega fellt. Ibiza kemur aðeins betur út úr kreppunni, og í raun Baleares eyjarnar allar. Hér er minnkun ferðamanna um 6,5% miðað við sama tíma á síðasta ári. Fólk hér kvartar en það kvartaði líka 2007 þegar of mikið var af ferðamönnum og maður gat sig hvergi hreyft. Hinn gullni meðalvegur er vandfundinn.

Spyrja má sig hvernig Spánverjar væru staddir ef þeir væru eins og við, með eigin mynt og fyrir utan ESB. Væntanlega væri pesetinn búinn að veikjast gagnvart evru og verðbólga hér væri hærri en ferðamenn fengju meira fyrir evrurnar sínar og Spánverjar væru ekki að upplifa fækkun ferðamanna heldur líklega aukningu. En það væri dýru verði keypt með tilheyrandi óstöðugleika og óvissu. Evran og ESB gefa þeim stöðugan grunn til að byggja á þrátt fyrir að vandamálin séu vissulega mörg enda þýðir aukið atvinnuleysi minnkandi neyslu sem þýðir verri afkomu margra fyrirtækja sem aftur á móti eykur atvinnuleysið enn meira, hættulegur vítahringur.

Ef Spánverjar væru fyrir utan ESB og með pesetann og að lenda í því sem margir Íslendingar eru að lenda í að sjá lánin sín tvöfaldast án þess að hafa tekið krónu meir í lán þá er ég ansi hræddur um að fólk hér myndi bregðast mjög hart við og ekki láta sér nægja að berja potta og kalla „vanhæf“ ríkisstjórn, hér myndi líklega allt loga í óeirðum.

Það er skelfilegt til þess að hugsa að besta fólkið sem við eigum til að rannsaka þetta rugl allt saman situr hinu megin við borðið og er búið að byggja upp þvílíkt net af allskyns flækjum við þúsundum eignarhaldsfélaga hingað og þangað um heiminn. Hugsanlega væri best að veita Sigurjóni, Hreiðari og Bjarna fulla uppgjöf "hugsanlegra" saka og mistaka og ráða þá í að ráða fram úr þessu, enginn Íslendingur skilur þetta betur en þessir menn.

 

Bestu kveðjur frá Ibiza.

Sigurjón Sigurðsson.

 


Silfur Íslands.

Þegar ég sat og horfði á söngvakeppnina s.l. laugardag þá verð ég að viðurkenna að ég fylltist miklu stolti yfir framlagi okkar og ekki gladdi niðurstaðan mig minna, annað sætið er frábær árangur. Sama hvað má segja um þessa umdeildu keppni þá var framlag okkar frábært, landi og þjóð til sóma. Til sóma var líka íslenska handboltalandsliðið í Peking sem náði, eins og Jóhanna og félagar, silfrinu í hús. Þegar eins lítil þjóð eins og Ísland nær viðlíka árangri í keppni við milljónaþjóðir er ástæða til að gleðjast og minnast þess krafts og þeirrar elju sem býr í þjóðinni.

Við lifum nú á miklum umbreytingartímum og enginn veit hver lokaniðurstaðan verður fyrir íslenskt samfélag. Stjórnmálamenn tala nú frá þingsetningu til þjóðarinnar og flestir hafa þeir eitthvað til síns máls á meðan annað hljómar afar undarlega. Ég tel að núverandi staða sé yfir allar flokkslínur hafin.
Á að hefja aðildarviðræður að inngöngu Íslands í ESB? Ég vildi að ég gæti hér talið nákvæmlega upp kosti og galla við þetta stóra mál en það virðist einnig vefjast talsvert fyrir stjórnmálamönnum okkar enda vandséð um útkomuna nema farið verði í aðildarviðræður.
Margt er óljóst en ég get nefnt eitt dæmi um mismun á stöðu t.d. Íslendings og Spánverja í núverandi kreppu, kreppan á Spáni er djúp og þeir oft nefndir sem dæmi um þjóð sem er innan ESB og er að ganga í gegnum mjög erfiða tíma.
a) Íslendingur keypti íbúð 2007 á kr. 30 milljónir. Hann borgaði 10 milljónir út og tók lán fyrir   mismuninum. Honum var ráðlagt að taka lánið í erlendri mynt því það væru lægri vextir á þeim lánum og forsöguleg gögn á gengi krónunnar bentu til að gengistryggð lán væri góður kostur.
Hver er um það bil staðan á þessum einstaklingi í dag? Gera má ráð fyrir að lánið standi í ca. 40 milljónum vegna veikingu krónunnar. Gera má ráð fyrir að íbúðin sé að hámarki 25 milljóna virði. Þessi aðili hefur því vegna afar daprar efnahagsstjórnar tapað því eigið fé sem hann lagði í íbúðina ásamt því að upprunalegt lán hans hefur tvöfaldast. Segjum að hann geti selt íbúðina á 25 milljónir þá ætti hann að hafa tapað ca. 5 milljónum af eigið fé (mínus vexti) en í stað þess þá situr hann uppi með 15 milljón króna skuld. Ef viðkomandi lendir svo í launlækkun eða vinnumissi þá er ekki að sökum að spyrja.
b) Spánverji sem gerð það sama. Það er að kaupa sér íbúð árið 2007 borgaði 250 þúsund evrur fyrir hana. Hann tók lán upp á 168 þúsund evrur til tuttugu ára og borgaði með eigið fé mismuninn, eða 82 þúsund evrur. Húsnæðið hans hefur lækkað í verði og er í dag getur hann fengið um 200 þúsund evrur fyrir íbúðina. Hann lendir í því mikla atvinnuleysi sem nú er á Spáni (ca. 18%) og neyðist til að selja íbúðina sína. Hann selur íbúðina og borgar upp lánið sem á henni hvíldi. Eftir þessi viðskipti hefur þessi einstaklingur orðið fyrir tjóni en á þó enn ca. 30 þúsund evrur af því eigið fé sem hann lagði í fjárfestinguna en lánið er uppgreitt. Vextir þeir sem bankinn tók á tímanum eru rúm 5% og lánið er ekki verðtryggt.

Þetta er tilbúið dæmi en nokkuð nærri lagi. Það sem skiptir máli hér er að fólk geri sér grein fyrir því að þessi óstöðugleiki sem fylgir veikum gjaldmiðli og dapri efnahagsstjórn er ekki búandi við, það hlýtur hvert mannsbarn að sjá.
Það mætti líka nefna mýmörg dæmi um fleiri fjárfestingar, t.d. vegna bílakaupa. Auðvitað gildir hið forkveðna "veldur sá er heldur" og hægt er að segja að þeir sem völdu myntkörfulán voru að freista þess að borga minna en hinir sem völdu krónulán og eigi bara að taka því. En vegna hruns krónunnar þá hafa þeir sem tóku verðtryggð krónulán heldur ekki sloppið við töluverða hækkun á sínum lánum.

Nú gæti einhver réttilega bent á að ekki megi gleyma því að með veikingu krónunnar fáum við meira fyrir afurðir okkar í krónum talið en vandamálið er í þetta sinn þannig vaxið að helstu útflutningsgreinar okkar eru mjög skuldsettar og mikið af þeim skuldum er í erlendri mynt.
Er þá ekkert ljós í þessu ástandi? Jú það er vissulega ljós en það mætti birta það verulega. Nefna má að vöruskiptajöfnuður okkar við útlönd er aftur jákvæður sem þýðir að við erum að afla meiri gjaldeyris en við erum að eyða í innfluttar vörur. Fólki hefur líka talað um að fjölskyldutengsl hafi styrkst og að margir beri meiri virðingu fyrir vinnunni sinni núna o.fl.

Ég vona að þeir aðilar sem hafa verið fengnir sérstaklega í að rannsaka bankahrunið séu starfi sínu vaxnir. Það er KRAFA þjóðarinnar að ekki verði gefið eftir í þeim efnum og ég vona að yfirvöld haldi ekki að þjóðin muni sætta sig við að sigla lygnan sjó frá þeim mikilvægu málum. Það er ljóst að þessi mál eru flókin og umfangsmikil og því verður þetta fólk að fá sinn tíma til að vinna þessa vinnu en mikilvægt er að þjóðin fái að fylgjast með þróun mála, eins og mögulegt með rannsóknarhagsmuni að leiðarljósi.

Mig langar að rifja upp fyrir ykkur stöðu bankanna (þriggja stóru) um mitt ár 2007. * Hreinar vaxtatekjur bankanna á fyrri hluta ársins 2007 fóru yfir 78 milljarða. Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 76 milljörðum króna árið 2006.
* Eigið fé bankanna í lok júní 2007 nam 636 milljarða króna sem var jafnt heildarmati allra fasteigna í Kópavogi og Hafnarfirði 2006/2007.
* Heildareignir bankanna í lok júní 2007 voru 9.500 milljarðar króna. Það voru þá sexfaldar hreinar eignir lífeyrissjóðanna.
(heimild: Markaðurinn 8. ágúst 2007).
* Ári síðar, eða í júní 2008 mátu bankarnir eignir sínar 14.400 milljarða.
(heimild: http://www.amx.is/vidskipti/6421/

Þessar tölur sýna að um gríðalega fjármuni er (var) að ræða.
Nýir efnahagsreikningar bankanna hafa ekki enn verið birtir enda ekki auðsótt mál að gera sér grein fyrir eignastöðunni en ljóst er að í þessum eignasöfnum var mikið af skuldabréfum sem krossuðu á milli bankanna ásamt skuldabréfum frá stórum aðilum sem eru komnir í þrot eða á leiðinni þrot. Mikið af fjármunum hefur tapast og það er alltaf slæmt en verra er þó að þjóðin situr uppi með stórtjón vegna þessara fyrirtækja enda eru bankar engin venjuleg fyrirtæki, því hafa Íslendingar fengið að kynnast.
Mikilvægt er því að allar fyrirgreiðslur, veð og peningaflutningar sem tengjast rekstri þessara banka mánuðum fyrir hrun sé vel skoðað, þjóðin á heimtingu á því að yfirvöld beiti sér af fullum krafti til að endurheimta allt það fé sem hægt er og að refsa þeim sem sök eiga, hafi lög verið brotin.

Ég vil að lokum velta því fyrir mér hvort við getum ekki selt eitthvað af fínu sendirráðunum okkar erlendis og skorið niður eins og hægt er í þeim hluta ríkisútgjaldanna og nota það fé til hjálpar hér heima, af nógu er af taka.

Mbk. Sigurjón Sigurðsson        


Þjóðarskútan er strönduð, nýja áhöfn STRAX.

Ef við tölum um siglingar í samhengi landsins okkar þá hefur þjóðarskútan sannarlega siglt í strand. Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál en öllu verra er að upplifa að áhöfnin sem stóð fyrir strandinu neiti að fara frá borði. Það er leitun að Íslendingi sem ekki hefur orðið fyrir barðinu á strandinu og einnig er leitun að fólki hér á landi sem finnst réttlætanlegt að sama áhöfn haldi áfram. Fólk er hrætt, reitt og öryggislaust enda er efnahagsleg tilvera margra í uppnámi. Ég vil ekki halda því fram að þeira sem sátu og sitja við stjórnvölinn séu "ónýtir" eða vonlausir, alls ekki, en þetta fólk gerði sér ekki grein fyrir hvert stefndi, hlustaði ekki á varúðarorð og því fór sem fór. Þjóðin hefur enga tryggingu fyrir því að þetta sama fólk sé "rétta" fólkið til að draga skútuna á réttan kjöl og heldur ekki fyrir því að þetta sama fólk muni sigla henni aftur í strand þegar um hægist. Í raun eru trúverðugleiki, ábyrgð og virðing það sem fólk almennt vill tengja við stjórnmálamenn og stjórnendur. Þessir þættir eru ekki lengur fyrir hendi hjá þeim sem stýrt hafa skútunni og vilja gera svo áfram, það er alveg kristaltær staðreynd.

Þjóðin hefur verið að mótmæla ástandinu og aðgerðaleysinu. Allt á að vera upp á borði en sumt þolir ekki dagsljós og væntanlega mun margt ekki koma fram enda eru margir stjórnamálamenn okkar svo þvældir inn í vef viðskiptaumhverfisins og munu væntalega, bak við hinu stóru tjöld, beita áhrifum sínum svo þetta geti lent "mjúklega" framhjá augum almennings. En almenningur er það afl sem getur stöðvað þetta og ég vona að sú verði niðurstaðan.

Í íþróttum er stundum talað um að spila eins fast og dómarinn leyfir og það er nákvæmlega það sem leikmenn (viðskiptamenn og bankastjórnendur) gerðu. En hver hefði átt að taka í taumana? Fyrir utan ríkistjórnina og ráðuneytin er ekki hægt að horfa framhjá banka bankana, Seðlabankanum og síðan Fjármálaeftirlitinu.

 Á fyrri hluta árs 2001 tók Seðlabanki Íslands upp nýja peningastefnu þar sem verðbólgumarkmið og fljótandi gengi eru megin stýritæki. Skoðum nánar þessi markmið:

 "Meginmarkmið Seðlabankans er stöðugt verðlag, skilgreint sem hækkun neysluverðs um 2½% á tólf mánuðum.

Þolmörk
Stefnt er að því að verðbólgan verði að jafnaði sem næst verðbólgumarkmiðinu. Víki hún meira en 1½ prósentu í hvora átt
ber Seðlabankanum að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leiðum til úrbóta.

Leiðir
Helsta tæki Seðlabankans til að ná verðbólgumarkmiðinu eru vextir á sérstökum lánum gegn veði til lánastofnana. Telji bankinn ástæðu til getur hann einnig átt viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri í því augnamiði að hafa áhrif á gengi krónunnar og þar með verðlag." (http://sedlabanki.is/?PageID=3)

Þessi markmið eiga fyrst og fremst að leiða til verð - og fjármálastöðugleika. Hvernig finnst ykkur Seðlabankanum hafa tekist til? Falleinkunn???

Þessi lán til veði tilhanda lánastofnunum eru nú í uppnámi vegna hruns lánastofnana. Það virðist sem þessi bréf hafi verið svokölluð "ástarbréf" eða ákaflega vonlítil veð. Hvernig stóð á því að bankinn samþykkti þessi veð? Voru áreiðanleikakannanir ekki gerðar á styrk þessara veða? Að minnsta kosti er staðan sú að ríkið er nú búinn að taka þessi bréf yfir sem eru upp á einhvera ca. 200 milljarða og byrjaði á að afskrifa tugi milljarða þeirra. Ef ríkið hefði ekki gert þetta væri Seðlabankinn tæknilega gjaldþrota. Á hreinni íslensku lendir þessi vitleysa öll á ríkiskassanum og er alveg óvíst um hve mikið af þessum bréfum fást greitt, þ.e.a.s. þeim sem voru ekki afskrifuð strax.

Skoðum annan þátt er tengist yfirstjórn þessa mikilvæga banka bankanna. Í núgildandi lögum um Seðlabankann (Tóku gildi 23. maí 2001. Breytt með l. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005) er m.a. ekkert kveðið á um hæfniskröfur og sérstaklega er tekið fram að ekki þurfi að auglýsa embættin laus til umsóknar (http://www.althingi.is/lagas/nuna/2001036.html). Hvernig á Seðlabanki sem stjórnað er eftir slíkum ramma að hafa trúverðugleika? Ég hef persónulega ekkert á móti neinum þeim er situr við stjórn í Seðlabankanum nema hvað þeir ættu að víkja skilyrðislaust úr stólum sínum. Breyta á fyrrnefndum lögum og ráða einn Seðlabankastjóra á FAGLEGUM grundvelli. Þessi skilaboð þola enga bið ef mönnum er alvara með að byggja aftur upp þann trúverðugleika sem Seðlabankinn verður að hafa og um leið rétta stefnu peningamálastefnu sem stóðst ekki.

Fjármálaeftirlitið er einnig miklvægur þáttur í fjármálakerfi okkar eða átti a.m.k. að vera það. Kíkum á heimasíðu FME:

"Stefna FME

Öflugur fjármálamarkaður er þjóðfélagslega mikilvægur. Á næstu árum má búast við örum breytingum, frekari vexti og aukinni alþjóðavæðingu. FME vill hafa jákvæð áhrif á þróun markaðarins og stuðla að traustri fjármálastarfsemi. Til þess þarf skýra stefnu, skilvirka innri ferla, hæft starfsfólk og fyrirmyndar upplýsingakerfi.

FME ætlar sér:

  • Að vera mótandi og stuðla að traustri fjármálastarfsemi.
  • Að vera þekkt fyrir fagmennsku, áreiðanleika og árangur.
  • Að njóta virðingar og trausts.
  • Að vera góður og eftirsóknarverður vinnustaður." (http://fme.is/?PageID=24).

Hvernig finnst fólki FME hafa tekist til við að ná markmiðum sínum? Falleinkunn??

Þann 8. janúar sl. birtist frétt á mbl.is þar sem vitnað er í fyrrverandi lögfræðing FME, Elínu Jónsdóttur, þar sem hún lýsir viðbrögðum bankamanna við heimsóknum og spurningum FME.
„Ég man eftir fundum þar sem maður sat við langborð í stórum fundarherbergjum og á móti manni var þéttskipaður hópur af lögfræðingum og yfirmönnum bankans, allir rauðir í framan af reiði vegna afskiptasemi Fjármálaeftirlitsins,“

Fyrir nokkrum árum hafi laun starfsmanna FME verið samkeppnishæf, en síðan hafi ekki reynst unnt að keppa við bankana. Því hafi ekki tekist að halda lykilstarfsmönnum. Elín segir að eftir á að hyggja hefði átt að vera hægðarleikur að láta eftirlitsgjaldið, sem bankarnir greiða, fylgja vexti í fjármálageiranum (http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/08/raudir_i_framan_af_reidi/)

Hvernig á FME að vera með trúverðugt eftirlit með þeim sem fjármagna í raun starfssemi þess?

Nýverið kom frétt um að FME hafi borist skýrslur frá endurskoðendafyrirtækjunum sem skoðuðu bankanna vegna falls þeirra. "Allt upp á borði" var og er vinsælt hjá stjórnmálamönnum þegar þeir eru spurðir áðurnefndar skýrslur hafa samt ekki enn verið birtar né nokkur úrdráttur úr þeim. Væntalega þola þær illa dagsljósið, eða hvað er verið að fela fyrir almenningi? Kannski eru þær fullar af viðskiptavinklum sem eru svo flóknir og torskyldir að FME sjáflt á erfitt að botna í þeim? Dæmi um einn slíkan vinkil er þessi dæmalausi gjörningur Kaupþingsmanna stuttu fyrir hrun bankans að selja Sheikh Muhamed nokkur prósent í félaginu sem virðist ekki hafa þjónað nokkrum öðrum tilgangi en að reyna að auka trúverðuleika bankans og forða bréfum hans frá falli. FME er nú að rannsaka þessi viðskipti og hægt er að lesa sér til um hvernig þetta var framkvæmt á: http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/01/16/fme_rannsakar_hlutabrefakaup/

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum hvernig menn teygðu sig í allar áttir við að halda hriplekri skútu á floti fyrir framan augu máttlítilla og vanhæfra eftirlitsaðila.

Maður gat ekki annað en hlegið þegar Spaugstofan kom fram með "Nýja Guðjón"  sem búinn var að afskrifa allt sem "gamli Guðjón" hafði skuldað. Ég er með persónulegt dæmi um eitt svona mál er tengist  "gamla" Landsbankanum. Fyrir hrun Landsbankans óskaði ég eftir í mjög greinargóðum tölvupósti að ákveðin bréf sem ég var með hjá þeim yrðu seld. Það var ekki gert nema að hluta og átti að klára málið eftir helgi, sem var vitanlega of seint. Sá "gamli" var farinn og "nýji" LÍ tekinn við. Ef ég hefði eitthvað við vinnubrögð "gamla" LÍ að athuga yrði ég að eiga það við þann "gamla," kæmi hinum "nýja" ekki við. Ég talaði við umræddan starfsmann og honum þótti þetta leitt....
Banki gefur aldrei neitt eftir og bankamenn, og fleiri, hafa lengi haft horn í síðu svokallaðra kennitöluflakkara sem fara í þrot, skilja eftir sig sviðna jörð og rísa svo aftur upp með "hreint" borð.... minnir þetta eitthvað á "gömlu" og "nýju" bankana?

Það verður að hafa í huga að þessar hamfarir eru ekki eins og "skyndilegur" jarðskjálfti eða eldgos, þetta var sannarleg fyrirséð og aðvörunarljós voru búin að blikka sig hás.

Snúum bökum saman og byggjum upp betra Ísland.

Mbk. Sigurjón Sigurðsson

 

 

 

 


Vandræði flaggskipa útrásarinnar ofl.

Ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki við að fá fréttir eins og þær sem við höfum undanfarið fengið af efnahagsástandinu, manni bregður eftir allt góðærið og allar þær yfirlýsingar og kaupgleði sem hefur einkennt íslensku útrásarfyrirtækin og bara flesta landsmenn.
Í sögubókum framtíðarinnar verður líklega fjallað um þetta "gullaldarskeið" með þeim hætti að allt hafi verið keyrt upp og mikið fjárfest og útrás og fjárfestingar erlendis hafi verið heimsmet. Einnig hafi stýrivextir verið himinháir. Margir erlendir greinendur hafi fjallað um þetta sem hættulega stefnu og froðu og svo kemur spurningin, virkaði þetta svo? Neibb, virkaði ekki og landið gekk í gegnum mikla og erfiða efnahagslægð í framhaldinu.
Ekki dettur mér í hug eitt augnablik að einhver einn eða eitthvað eitt fyrirtæki beri ábyrgð á þessu en það hefur aftur á móti komið í ljós hvað skurninn er þunnur þegar á móti blæs. Þetta minnir á gamlan og góðan brandara með kaffihúsakörlunum með sjónvarpið og heimatilbúna loftnetið, "virkaði það? nei það virkaði ekki".

Ég er sammála þeim sem verja hvað stjórnmálamenn og fleiri sem eru varkárir í yfirlýsingum við blaðamenn, allar yfirlýsingar í þessu árferði eru stórhættulegar. Það eru eflaust margir sammála mér í því að við hefðum viljað sjá þessar aðgerðir, sem er verið að vinna að um helgina, mikið fyrr þar sem það er fyrir þó nokkru ljóst hvert málin voru að þróast.

Ég verð líka að segja að ég skora á fólk að kynna sér heimasíðu Seðlabankans. þar koma reglulega fram fréttir og til að mynda birtist þessi frétt 25. mars sl. þar sem fjallað eru um aðgerðir bankans til að létta undir fjármálafyrirtækjum.
http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=1691
Ég set þetta bara inn sem dæmi um að bankinn hefur ekki horft aðgerðarlaus á en þessar aðgerðir dugðu skammt, eins og hefur komið á daginn. Það er ekki auðvelt að rýna í hvað bankinn hefði átt að gera og hvað ekki en þó er ljóst að fyrr á árinu hefði verið rétt að styrkja gjaldeyrisvarasjóð okkar en það er þó ekki víst að sú styrking hefði nægt til að verja krónuna frá því falli sem hún hefur verið í...... Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á og sérfræðingar bankans reyna auðvitað að leggja til þær lausnir sem eru innan reglna bankans og taldir þeir bestu hverju sinni, ég vona að fólki detti ekki annað í hug.

Að lokum er bara eitt, verum bjartsýn og lítum á það jákvæða við þetta sem er að við hljótum að læra af reynslunni, ég er að minnsta kosti búinn að því :)

Mbk. Sigurjón Sigurðsson

 


Til hamingju Ísland!

Maður getur ekki annað en fyllst stolti yfir árangri íslenska handboltalandsliðsins. Liðið er frábær blanda af íþróttamönnum sem hafa trú á getu sinni og vita hvað þarf til að vinna. Í leiknum í dag sást eina ferðina enn hvað liðið er vel mannað. Þegar einn leikmaður náði ekki að sína sitt besta, sbr. Arnór Atla þá kom Logi Geirs með frábæra innkomu. Þegar Alexander náði ekki taktinum kom Ásgeir með frábæra innkomu. Snorri Steinn, Ólafur og Guðjón Valur eru leikmenn í heimsklassa og hafa ekki gert annað en að sýna það og sanna í þessari erfiðu keppni. Ekki má heldur gleyma sterkum og fórnfúsum varnarleik með öfluga markvörslu á bak við sig. Strákarnir hafa einnig fylgt reglu fyrirliðans að vera jákvæðir og duglegir að hvetja hvern annan.

Leikmenn eru eitt og þjálfari og umgjörð annað. Ef þetta nær vel saman er kominn vísir að árangri sem við höfum orðið vitni að. Guðmundur er nákvæmur, vel skipulagður og strákarnir bera greinilega mikla virðingu fyrir honum. Forkólfar HSÍ standa sem klettur á bak við allt saman.

Aftur til hamingju Ísland og ég hlakka til að sjá strákana gegn Frökkum þar sem allt getur gerst.

Mbk. Sigurjón


,,Pídele cuentas al rey"

Þetta er nafn á Spænskri mynd frá árinu 1999 sem ég horfði á nú í vikunni. Titillinn þýðir eitthvað á þá leið ,,Biddu kónginn um reikningsskil"

Þessi mynd er alveg ótrúlega mögnuð. Hún segir frá Fidel nokkrum námumanni í Austrias á Spáni sem fær nóg af meðferð námufyrirtækja á starfsmönnum sínum. Tíð slys og lokanir er það sem við þeim blasir og hann ákveður að rölta nokkur hundruð kílómetra, frá Austurias til Madrid, til að hitta kónginn og krefja hann um 35. grein spænsku stjórnarskráarinnar sem segir að allir Spánverjar eigi rétt á virðingarverði vinnu.

Fidel heldur fyrst af stað með konu og barn en á miðri leið veikist faðir konu hans og er lagður inn á spítala svo hún og barnið halda heim en Fidel heldur ótrauður áfram.
Á leið sinni lendir hann í ýmsum uppákomum, bæði góðum og slæmum. Þau voru rænd af óheiðarlegum flakkara en fengu líka óvænta hjálp frá öðru góðu fólki.

Fidel fékk sínar 5 mínútur með kónginum og gengið var í að fara yfir mál þessa námufólks og að finna því aðra viðunandi vinnu. Fidel vinnur nú við að framleiða leikföng í Alicante :)

Ég dáist af mönnum eins og Fidel. Fá nóg af óréttlæti og gera eitthvað í málinu en sitja ekki bara yfir kaffibollanum heima og rífast út í allt óréttlætið í kringum okkur.

Ómar Ragnarsson er eini ,,Fidel" okkar Íslendinga, sem ég man eftir. Hann fórnaði tíma sínum og meira en öllum peningum í að berjast fyrir því að stærsta framkvæmd Íslandsögunnar yrði stoppuð.

Ég myndi gjarnan vilja sjá fleiri íslenska ,,Fidel" koma upp á yfirborðið. Fólk sem segði stopp við íslensku okri og óréttlæti. Dr. Gunni er að vísu byrjaður en ég sakna þess að hann gangi ekki lengra og fá fólk út en sé ekki bara að pirrast yfir okri á heimasíðu sinni.

Þegar ég sagði Spánverjunum um daginn frá íslenskum stýrivöxtum 14,5% þá trúðu þeir ekki sínum eigin eyrum og sögðu allir, þetta minni á 3ja heims ríki. Hversu lengi ætlum við að láta yfir okkur ganga? Hvenær vaknar íslenski víkingurinn og gerir eitthvað í málinu en hættir að láta ,,kvartarann" sofna á korteri?

Spyr sá sem ekki veit en ég veit það þó að þetta ástand er ekki varanlegt og lendingin getur orðið ansi hörð ef ekki verður af fullri alvöru og einurð spyrnt við fótum.

Mbk. og ég minni á kántrýballið á laugardaginn á Ásvöllum. Húsið opnar 23 og miðasala er á fullu á Olísstöðvunum.

Sigurjón Sigurðsson.

 


Ágætar greinar um áfengismálið.

Á fimmtudaginn keypti ég mér DV og Morgunblaðið og las Fréttablaðið. Þetta er frétt því ég er ekki mikið í því að lesa blöðin í þaula þar sem ég læt mbl.is duga vegna mikilla anna.

Í DV rakst ég á mjög fína grein eftir Jóhann Hauksson útvarpsmann, ,,Léttamfetamín".

Í grein sinni fer höfundur aðeins yfir þetta mál með áfengið vs. aðra vímugjafa og bendir á þá STAÐREYND að fólk talar venjulega um áfengi eins og neysluvöru en ekki fíkniefni og segir:
,,Við tölum líka um áfengi og fíkniefni rétt eins og áfengi sé ekki fíkniefni. Við látum það ekki vefjast fyrir okkur og heimtum að þetta slævandi fíkniefni, sem áfengi er, verði selt í matvörubúðum. Læknavísindin, rökvísin og heilbrigð skynsemi segja okkur að sama gildir um alkahól, diazepam, amfetamín, kókaín og heróín. EFNIN ERU ÝMIST ÖRVANDI, SLÆVANDI EÐA VALDA SKYNVILLU. Neyslan framkallar eftirköst sem stundum eru engu betri en svæsin og hættuleg sýking. Samnefnari allra þessara efna er að þau mynda fíkn. Fíkniefnið áfengi veldur böli tíunda hluta allra einstaklinga og er þar af leiðandi einn stærsti lýðheilsuvandi samtímans". (Léttamfetamín. Jóhann Hauksson. DV Fimmtudaginn 26. okt. bls. 21)

Á bls. 27 í Morgunblaðinu þennan sama fimmtudag, 26. okt., fer Víkverji fyrir skjöldu þeirra sem eru komnir með nóg af drykkju og ólátum. Hann segir í bréfi sínu frá því að hann hafi fyrir nokkrum mánuðum hætt að smakka áfengi svona frekar í tilraunarskyni heldur en að neyslan hafi verið vandamál, það gildir í raun einu, til hamingju Víkverji að vera kominn í hópinn sem sér allt í fókus :)

Víkverji segi m.a. grein sinni og kemst vel að orði:
,,Út á lífinu breytist stór hluti Íslendinga í hamslaus óargardýr. Það er allstaðar troðist framfyrir, hellt niður, rifinn kjaftur, ruðst áfram í þvögum án tillits til neins og lítil virðing er borin fyrir umhverfinu eða öðru mannfólki inni á skemmtistöðum". (Víkverji skrifar. víkveri@mbl.is. Morgunblaðið Fimmtudaginn 26. okt. bls. 27)

Ég tek hattinn minn ofan fyrir fólki sem þorir að segja sannleikann, þrátt fyrir að Víkverji sé huldumaður, þá tek ég hattinn minn ofan.

Njótið dagsins og skemmtið ykkur í kvöld en látið óargardýrið hvíla sig eða hendið því bara á haugana:)

Mbk. Sigurjón Sigurðsson

 

 


Ísland vs. Færeyjar 0 - 1

Ég veit ekki hvort þið hafið séð í Fréttablaðinu í gær frétt sem ghs@frettabladid.is skrifar.

Viðkomandi ber saman, bls. 22, almenn verð í verslunum í Færeyjum og á Íslandi ,,best í heimi".

Niðurstaðan er þessi (ég bætti % mism. við):

VaraÍslandFæreyjarMism. Í %
Levi´s gallabuxur  10.490,00 kr.     9.891,00 kr. 6,06%
Tiger gallabuxur  14.990,00 kr.   12.207,00 kr. 22,80%
Ipod Nano 8 GB  24.990,00 kr.   22.089,00 kr. 13,13%
Timbaland CD    1.890,00 kr.     2.327,00 kr. -18,78%
16 blocks DVD    2.299,00 kr.     2.327,00 kr. -1,20%
SpiderMan 3 DVD    1.999,00 kr.     3.130,00 kr. -36,13%
1 kg. Rauð epli          75,00 kr.           28,98 kr. 158,80%
1 kg. Ungnautahakk    1.304,00 kr.         534,72 kr. 143,87%
1 kg. Nautahakk        898,00 kr.         651,00 kr. 37,94%
1 kg. Kjúklingabringa    1.398,00 kr.     1.243,53 kr. 12,42%
1 kg. Beinlaus og rauðlaus þorskur 
frystur í bitum á Íslandi        798,00 kr.     1.280,00 kr. -37,66%
1 ltr. nýmjólk          72,00 kr.         119,28 kr. -39,64%
Verksmiðjuframleitt heilhveitibrauð 
í sneiðum, 770 gr.        159,00 kr.         259,62 kr. -38,76%
Kartöflur 1 kg.          95,00 kr.         121,96 kr. -22,11%
6 dósir Tuborg Grön 0,5 ltr.    1.104,00 kr.         674,95 kr. 63,57%
Biblían með mjúkum spjöldum    5.980,00 kr.     1.745,55 kr. 242,59%
Biblían með hörðum spjöldum    7.480,00 kr.     2.909,00 kr. 157,13%
1 ltr. 95 okt. Bensín        126,40 kr.         102,17 kr. 23,72%
Far í strætó 100 -> 280  Frítt  

Ég veit ekki með ykkur en ég er orðlaus og mjög hissa á því að það kom ekkert um þessa könnun í fréttum í gær, amk ekki í þeim fréttum sem ég sá.

Tökum dæmi með bensínið. Getur einhver útskýrt fyrir okkur að það sé eðlilegt að bensín á Íslandi sé rúmlega 20% dýrara en í Færeyjum?

Að á ungnautahakki og rauðum eplum muni ca. 150%?

Að trúaðir guðelskandi menn sem vilja kaupa Biblíuna verði að borga ca. 200% meira fyrir gripinn hér en í Færeyjum?

Svör óskast.

Ég, aftur, á ekki til orð kæru Íslendingar.

Mbk og njótið dagsins.
Sigurjón Sigurðsson

 

 


Íslenska ,,víkingakonan"

Það er alltaf eitthvað svo kúl við það að koma heim eftir velheppnaða ferð til útlanda.
Ég þori varla að segja það en mér finnst ég allataf pínu vera kominn heim þegar ég er kominn í biðröðina á flugvöllinn sem er að fara að skila mér til Kef. Ég þori varla að segja það því þá sér maður ,,víkingakonurnar" íslensku og þær láta mig finnast mig vera kominn heim.

Hin týpíska íslenska ,,víkingakona" er kona sem er oftast aðeins ljós yfirlitum. Hún er svona ekki feit og ekki mjó og er mjög ákveðin. Hún grætur í laumi og lætur enga ,,karlpunga" valta yfir sig og það á við alla ,,karlpunga" nema ef helst hún verður ástfangin í Suður Evrópu, þá á hún erfitt með sig. Hún er nefnilega jafn mjúk og tilfinningarík og hún er hörð, hún sýnir bara miklu sjaldnar mjúku hliðina heldur en hinar.

Henni finnst gaman að djamma en hún drekkur oftast ekki of mikið því hún vill ekki tapa andlitinu og hún er hætt að reykja, búin að prófa fannst það gott en hún getur bara ekki reykt því það er ,,out" og svo er það óþolandi að þurfa að fara alltaf út til að reykja.

Íslenska víkingakonan er oftast í sambandi þar sem valdajafnvægið er algjörlega hennar megin, annað gengi ekki, nema aftur þegar hún verður ástfangin í Suður Evrópu, þá tapar hún kúlinu ef hinn aðilinn fer ekki vel með hana.

Ég þarf ekki að taka það fram að ég og íslenska ,,víkingakonan" eigum ekki samleið, ekki hægt að hafa tvo skipstjóra á sama skipinu :) Kannski þess vegna sem ég er single .....

Alla vega ber ég ómælda virðingu fyrir íslensku ,,víkingakonunni", hún er ,,backbone" í okkar samfélagi, hún liggur ekki upp í rúmi í þynnku lætur ,,kallinn" boða sig veika, neibb, hún fer þrátt fyrir vanlíðan og klárar málið, þannig er það bara.

Ég þori ekki að nefna nein dæmi en ég er með nokkrar í huga þegar ég er að skrifa þessi orð en þið þekkið örugglega einhverja :)

Njótið dagsins.

Mbk.
Sigurjón Sigurðsson

es. the good girls are just bad girls that haven´t been caught yet :)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurjón Sigurðsson

Höfundur

Sigurjón Sigurðsson
Sigurjón Sigurðsson
Höfundur er Hafnfirðingur sem spilaði lengi handbolta og heldur enn mikið upp á það sport. Golf og borðtennis hafa þó komið sterk inn undanfarið. Núverandi búseta er Club Punta Arabí - Es Canar - Ibiza. Starfa hér fyrir íslenska ferðaskrifstofu, Trans Atlantic. Ágætt hjá okkur í fyrra, gott í ár en öll teikn stefna í mikla aukningu á næsta ári. Höfundur hefur lokið prófi í viðskiptafræði BSc. og er með próf fyrir lengra komna í spænsku. Höfundur hefur komið víða við í sínu lífi og mörg verkefni liggja að baki, allt skemmtilegt bara misskemmtilegt. Njótið hvors annars :)
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Auswitsch, götumynd af gamla hlutanum
  • Auswitsch, nr. 2
  • Auswithsch, hvaða merki bar fólk
  • Herbergið í Krakow
  • Hótelsvítan í Varsjá

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband