Færsluflokkur: Bloggar

Prins Valíant ehf

Fyrirtækið sem ég vinn hjá og á heitir Prins Valíant ehf. Margir reka upp stór augu þegar þeir sjá nafnið og aðrir segja að þetta sé ,,geðveikt töff" sérstaklega ungar stelpur, veit ekki af hverju, allavega langar mig að útskýra nafngiftina.
Málið er að þegar ég var lítill þá átti ég eina uppáhaldsfrænku sem heitir Sigurjóna, alveg satt. Sigurjóna er svakalega ,,næs" kona og það var gott að knúsast í henni. Hún kallaði mig alltaf Prins Valíant, var samt aldrei með klippinguna, held ég amk. :)
Þegar mig vantaði nafn á litla hótelið sem ég stofnaði í Stykkishólmi þá fór í gang þankahríð (frábært orð, þýðir Brainstorming, fyrir þá sem ekki hafa tekið Aðferðarfræði í háskóla). Ég endaði á, eins og svo oft áður, að reyna að hugsa út fyrir rammann og vildi kalla hótelið Hótel Prins Valíant. Fólkið í Hólminu tók andköf enda ekki vant að kíkja langt út fyrir rammann og ég fór að hugsa um breytingar því ekki vildi maður vera að gera eitthvað í andstöðu við heimamenn. Hótel Breiðafjörður datt þá í huga mér og það fannst öllum frábært enda ekki bara inn í rammanum heldur í kjarnanum svo Hótel Breiðafjörður var ,,barnið" skírt. Þegar að þessum tímamótum var komið var ég búinn að stofna Prins Valíant ehf og taka lénið prinsvaliant.is frá. ,,Ansans" klúður hugsaði ég en skellti mér þá aftur út fyrir rammann og sagði við sjálfan mig að það er barasta ekkert að því að hótelið heiti Hótel Breiðafjörður og fyrirtækið Prins Valíant, og það varð úr.
S.s. fyrir þá sem þekkja málið og hafa ekki skilið það og lesa þetta þá er kominn fram í dagsljósið hinn heilagi sannleikur málsins, þetta er ekkert merkilegt en samt langaði mig að koma þessu á framfæri.

Snilldin er samt sú að ég seldi Hótel Breiðafjörð í sumar, á kvennréttindadaginn, en Prins Valíant ekki. Nú er Prins Valíant nefnilega kominn með mér í önnur mál sem ég er að ,,fíla" í botn.

Kíkið í heimsókn:
www.prinsvaliant.is

Mbk
Sigurjón Sigurðsson


Sex and the city

,,þú ert æði" sagði fallega leikkonan við vin minn eftir að þau voru búin að vera hittast í nokkra daga. ,,Ég held að ég sé að vera ástfanginn" sagði hann við mig ,,hún er frábær, sterk og ákveðin, engin dúkklísa svona kona sem mig hefur lengi langað að kynnast, þú veist að ég er ekki vinkonuvænn, þær þola mig ekki en þessi tekur eigin ákvarðanir, loksins fann ég eina slíka"
,,Frábært sagði ég, til hamingju"
Svo hringdi hann í mig í dag með smá særindi í röddinni ,,vá hvað ég var að lesa þetta allt vitlaust, öll sænin og knúsin, hún hringdi í mig í dag og sagði ,,XX þú ert frábær strákur, sætur og skemmtilegur og (hvísl) frábær í rúminu en ég ætla bara að vera ein"
,,æ æ" sagði ég og benti vini mínum á að gleyma henni sem ég vona að hann geri sem fyrst því honum leið eins og hann hefði verið notaður feitt.

Mbk og von um slysalausa helgi.
Sigurjón Sigurðsson

es. ég er ekki að fara að reyna að keppa við Ellý, alls alls ekki, fannst þessi saga af félaga mínum of góð til að sleppa henni.


Stjörnulögfræðingur.....

Enn og aftur er hinn brosmildi Fjölnir Þorgeirsson (36) kominn á forsíðu Séð og Heyrt og núna út af máli sem snýst um forkaupsrétt á landi IOGT í Galtarlækjaskógi. Ekki hef ég hugmynd um hvort Fjölnir eigi þarna einhvern rétt en ef svo er þá er auðvitað sjálfsagt mál hjá honum að sækja hann og ætti það ekki að vera flókið ef getið er skriflega um þenna rétt hans í kaupsamningi þeim sem hann hefur gert við IOGT þegar hann keypti þarna landskika undir sumarhús eða eh félag á hans vegum. Það er ekki það sem ég er að velta fyrir mér heldur því að í Séð og Heyrt stendur að Fjölnir hafi ráðið Vilhjálm H. Vilhjálmsson stjörnulögfræðing til að gæta hagsmuna sinna í ,,Galtarlækjarstríðinu", eins og Séð og Heyrt kýs að kalla deilu þessa, kunna að rósamála það vantar ekki :)
Ég hef stundum heyrt suma lögfræðinga vera kallaða stjörnulögfræðinga en hef aldrei alveg skilið þessa nafnbót. Er félag lögfræðinga með einhvern staðal sem notaður er til að finna út hvort menn séu stjörnulögfræðingar eða er þetta bara svona geðþáttadómur einhverra blaðamanna yfir ákveðnum hópi lögfræðinga sem þeir telja að séu að ,,rokka feitt" það og það skiptið....
Spyr sá sem ekki veit og ég vil taka það fram að ég ekkert á móti Vilhjálmi og reyndar alltaf fundist hann ljúfur náungi en mig minnir nú að hann hafi átt í einhverjum deilum vegna lokaritgerðar upp í HÍ á sínum tíma en ég man það ekki nógu vel til að vera úttala mig það enda er það ekki málið heldur langar mig að vita hvort til sé listi yfir alla stjörnulögfræðinga landsins ef mig skyldi vanta einn til að vinna fyrir mig, hljómar eh svo sterkt, ,,minn er sko stjörnulögfræðingur en þinn"?

 Mbk.
Sigurjón Sigurðsson


Áfram Jón!

Ég veit ekki hvort ég hef sagt frá því í bloggheimum hvað ég geri enda er það ekki einfalt að útskýra í stuttu máli. En m.a. er ég nemandi við Háskólann í Reykjavík og nú pínu stoltur af því hvernig mér hefur gengið þar þrátt fyrir að hið ,,undarlega" fag Aðferðafræði hafi aðeins vafist fyrir mér, APA staðallinn og allt það dæmi, ,,skili´ð hvað ég meina......" :)   (þeir sem sátu kúrsinn skilja djókinn)

Í dag kom á HR póstinum tilkynning um að skólinn hafi verið að ráða Jón Sigurðsson fyrrverandi formann Framsóknarflokksins til starfa sem sérfræðing í viðskiptadeild. Ég sendi strax póst á yfirmann deildarinnar, Þorlák Karlsson, og sagði honum að þarna hefði skólinn fengið góðan mann.
Ég kynntist Jóni þegar ég var á Samvinnuskólanum á Bifröst, fyrir ca. 20 árum. Það kemur sjaldan eða aldrei fram í umræðunni um Háskólann á Bifröst að ef Jón hefði ekki byrjað á því á sínum tíma að hækka skólann upp, úr 1. og 2. bekk í menntaskóla yfir í 3. og 4. bekk með frumgreinadeild, væri Bifröst líklega bara sumarhótel núna. Jón sagði við okkur á sínum tíma að hér ætti eftir að rísa háskóli í framtíðinni og viti menn hann hafði rétt fyrir sér.
Jóni skaust ansi snögglega upp á ,,stjörnuhiminninn" í pólitíkinni þegar Halldór Ásgrímsson vék, réttilega, sem formaður og flokkurinn leitaði með logandi ljósi að manni sem yrði sátt um. Jón var beðinn um starfið og sem maður áskoranna tók hann því, líklega mistök enda kom í ljós að þrátt fyrir dugnaðinn og greindina vantaði eitthvað sem fólk nefnir í daglegu tali ,,kjörþokka". Þokki þessi er, eins og ég skil hann, útgeislun og hæfni til að koma sínum skoðunum til fólksins á mannamáli, Jón reyndi en náði ekki inn enda staða flokksins afar veik fyrir. Fólk vildi s.s. ekki fá á þing mann sem er greindur, heiðarlegur og telur ekki eftir sér að vinna langan vinnudag til að klára málin. Ég man líka að ein kona sagði við mig að hann væri með leiðinlega kæki og að hann hefði svindlað til sín einhverju háskólaprófi á netinu :) þetta er auðvitað of fyndið til að sleppa broskallinum. Ef Séð og Heyrt eða DV, sem bulluðu eitthvað um þetta á sínum tíma, hefðu ekki verið að reyna að sverta ,,kallinn" og kynnt sér hans námsferil hefðu menn komist að því að Jón tók MBA próf sitt í USA fyrir tíma Internetsins og er í raun líklega síðasta gaurinn til að svindla til sín einhverja prófgráðu.
En Jón ,,vinur minn" fékk að kynnast þeirri tík sem kennt er við Pólí og laugin var of djúp.
Nú er Jón kominn á sinn gamla heimavöll, inn í framsækna og öfluga menntastofnun, þar sem ég veit að hann á eftir að gera góða hluti.

Áfram Jón :)

Mbk og ósk um slysalausa helgi.
Sigurjón Sigurðsson

es. ég er ekki flokksbundinn neinum flokki, eftir því sem ég best veit, fæ samt gíróseðla af og til frá einhverju félagi innan Sjálfstæðisflokksins sem ég borga auðvitað aldrei :)


Ja hérna.

Það væri auðvitað hægt að skrifa heila BA ritgerð um svona fréttamennsku, þvílík lágmenning verð ég að segja.

Mbk.

Sigurjón Sig.


mbl.is Hleypur um berrössuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtinn dagur.

Dagurinn í dag var mjög skrýtinn í mínu lífi.

Í morgun fór ég á snyrtistofu sem ég hef ekki gert í 10 ára eða meira, frekar ,,gay" en Rósa sem er með snyrtistofu Rósu í Firðinum er ekki bara snyrtifræðingur hún er líka sjálfmenntaður ,,mannfræðingur" þá ekki í þeim skilningi að hún viti allt um einhverja þjóðflokka út í heimi heldur bara mannfólkið yfir höfuð. Rósa er sko fædd 1930. Alla vega ég mæli með Rósu, hún hefur töfrahendur og frábæra nærveru. Brasílvaxið vafðist að vísu aðeins fyrir henni :) nei nei tók bara gott andlitsbað.

Í hádeginu fór ég að ganga frá innborgun á lóðina sem ég var að festa kaup á. Ég hlakkaði mikið til að sjá þetta allt fæðast á pappírum. Nokkrum mínútum áður en ég fór á inn á þennan fund fékk ég þær sorgarfréttir að bróðir konu pabba heitins væri látinn, fallinn fyrir eigin hendi. Ég fann fyrir þessari tómleika tilfinningu og augun fóru að vökna en ákvað samt að harka af mér og klára fundinn, ekki auðvelt. Fasteignasalinn og lóðasalinn buðust til að fresta honum en ég s.s. ákvað að klára málið.
Þessi drengur sem féll frá var ljúfur strákur sem lífið hafði gefið töluverðan mótvind en alls ekki þannig að þetta væri (ef það er þá einhvern tímann) besta leiðin. Hann átti konu og börn og það yngsta aðeins nokkra vikna gamalt. Þessi drengur var greindur en hann hafði barist við þunglyndi og bakkus gamla um nokkurn tíma sem samt hann faldi vel, eins og fólk gerir til að ,,halda" andlitinu út á við.
Ég er að blogga þetta út af einni og aðeins einni ástæðu. Ef einhver les þetta og er að glíma við þessi sömu eða svipuð mál og hefur hugsað um að taka eigið líf þá vil ég bara segja eitt:
Það er ekkert að því að sigla í strand og leita sér hjálpar, það gerist oftar og á fleiri stöðum en menn grunar ,,Kleppur er víða" (Englar Alheimsins). Hjálp er til og vertu viss 100% viss um að það mun birta á ný.

Mbk
Sigurjón Sigurðsson.

 


5 stjörnu helgi :)

Helgin hófst hjá mér á því að ég spilaði í golfmóti Hauka á Keilisvellinum. Þar sem mig vantar enn stöðugleika í mitt golf var ég ekki ,,að gera gott mót" en skemmtilegur félagsskapur.

Á laugardeginum skellti ég mér á Fiskidaginn mikla á Dalvík en það hafði ég ekki prófað áður og í sannleika sagt bara ekki komið á Dalvík :)
Þvílík snildarhátíð, góð skipulagning og ,,allir" velkomnir".
Frábær stemmning og mannlífið skemmtileg blanda af öllum aldri, líka þessum bannaldri Akureyringa, 18-23 ára. Allir skemmtu sér vel og ég sá ekki mikið vín á nokkrum manni og barasta engin slagsmál. Vinir mínir sem þarna voru með hjólhýsi ásamt fleira vinfólki voru líka í skýjunum og börnunum þeirra fannst þetta frábært.
Hátíðin endaði á stemmningssöng undir stjórn Matta í Pöpunum, algjör fagmaður. Get ekki miðað hann við Árna J. fer aldrei til Eyja..... en þetta var flott hjá honum.
Síðan tók við glæsileg flugeldasýning sem stóð örugglega yfir í ca. 20 min.
Til hamingju Dalvíkingar og ykkur mun ég sannarlega sækja aftur heim.

Á sunnudeginum, í gær, fór ég í veiði í Vatnsdalsá. Vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast en ég bjóst sannarlega ekki við því sem ég upplifði. Frábær aðstaða Vatnsdalurinn algjör paradís. Ég var að reyna að veiða lax í fjórða skiptið á ævinni og fyrsta á flugu. Það er ,,magic" í þessu, því get ég lofað. Lítið líkt með að veiða á maðk eða flugu. Mæli með fluguveiði. Ég fékk að vísu engan fisk en sá mikið líf og ég var alveg sallarólegur yfir því að veiða ekkert enda, eins og í golfmóti Hauka, í frábærum félagsskap.

Það eina sem skyggði á gleði mína um helgina var að sjá að góður félagi sé fallinn frá langt fyrir aldur fram. Ég er að tala um Gunnar Sæmundsson áfengis - og vímuefnaráðgjafa hjá SÁÁ. Ég var í nokkur skipti hjá Gunnari á göngudeild SÁÁ í fyrra. Ljúfari og þægilegri mann er ekki hægt að hugsa sér og hann var svo sannarlega á réttri hillu, hjálpaði mörgum að finna ,,beinu brautina".
Mig langar að senda ættingjum hans og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Mbk.
Sigurjón Sigurðsson

es. myndin er af Starkaði Sigurðarsyni, nýjasta félaga mínum :)  tekin á Fiskideginum mikla á Dalvík, Starkaður var að fíla þetta vel.

 

 Starkaður Sigurðarson

 

 


Goal Seek.

Enn og aftur ein lítil dæmisaga af þjónustugæðum hér á landi.
Í gær fór ég til mömmu ,,gömlu" til að aðstoða hana við smá núvirðisútreikninga í Excel sem er ekki frásögufærandi. Eftir að við höfðu reiknað okkur í gegnum dæmið þá ætlaði ég að kenna henni að nota Goal Seek í Excel sem er snilldarskipun. Reiknar á núll einni hvað x þarf að vera til að ákveðin jafna sé = 0. Ég er með nýja Office pakkann og s.s. 2007 útgáfuna, löglegt eintak :)
Alla vega ég gat með engu móti fundið, og ekki enn, hvar þessi skipun væri. Í ,,gamla" Excel er hún undir ,,Tools". Ég fiktaði og fiktaði en fann ekkert og fór þá að nota hausinn og sagði ,,hvað er þetta ég hringi bara í EJS og fæ info hjá þeim". Ég hringdi og vinalega stúlka svaraði. Hún vildi allt fyrir mig gera en þegar ég sagði henni vandmálið kom ,,babb í bátinn", ,,þetta veit ég ekki og ENDA erum við ekki í því að leysa svona mál (var samt alveg til í að reyna í byrjun) þú verður að hringja í Microsoft á Íslandi, þeir vita þetta". Ok, hugsaði ég og baðst afsökunar á að hafa haldið að þau væru með þetta umboð og þjónustu. Hún gaf mér símann hjá Microsoft á Íslandi. Ég var nú bara spenntur að hringja og athuga hvernig eitt stærsta fyrirtæki veraldar myndi ,,plumma" sig í þjónustu á Íslandi. Ég hringi. Sjálfvirk svörun fer í gang með að ýta á 1 eða 2 og allt það. Ég ýtti á 2 fyrir aðstoð. Smá bið svo segir röddin ,,þú ert númer einn" í röðinni. ,,Einn" hugsaði ég. Hummmm ríkasta tölvufyrirtæki í heiminum er með símsvörun sem segir manni á óbeygðri íslensku að maður sé nr. EINN. Prakkarinn kom upp í mér og ég hugsaði, kannski hefur einhver ,,Kani" forritað símkerfið og vissi ekki að maður er sko númer eitt eða tvö eða þrjú ekki einn, tveir, þrír. Alla vega var þetta fyndið ALLT þar til röddin var búin að segja 15 sinnum ,,þú ert nr. einn í röðinni" þá ákvað ég bara að vera númer núll í röðinni og leggja á.

Ég er alveg búinn að læra að það þýðir ekkert að vera reiður yfir svona bulli en þetta var samt mjög súrt. Kannski nær veldi Bill Gates (og budget) ekki alveg til Íslands, kannski er þetta fínt í Færeyjum sæmilegt á Íslandi og ónýtt á Grænlandi, spyr sá sem ekki veit.

Eigið frábæran slysalausan dag.

Mbk
Sigurjón Sigurðsson.

es. ef einhver getur bent mér á hvar ég finn Goal Seek í Office 07 (Excel) þá væri sú ábending vel þegin.


Hámarkshraði

Ég hef verið að velta fyrir mér þessu með hámarkshraðann á Íslandi og á erfitt með að skilja hann á sumum stöðum. Dæmi:

  • Sæbrautin. Hámarkshraði 60. Miðað við frágang og tvær akreinar er 60 alveg út í hött enda keyrir ekki nokkur maður þarna á 60. Nærri lagi væri að hafa 70 km hámarkshraða.
  • Nýbýlavegurinn. Hámarkshraði 50 km. Ekki nokkur maður á 50 þarna, ætti að vera 60.
  • Flugvallarvegurinn. Hámarkshraði 60, sama ekki heil brú í því, ætti að vera 70.
  • Svo það allra skrýtnasta. Nýja Reykjanesbrautin, eina ,,hraðbrautin" okkar. Hámarkshraði 90, sama og á öllum þjóðvegum landsins, mjóum og breiðum. Auðvitað fáránlegt. Ætti að vera 100.

Ég tek fram að þetta er sett fram vegna tilfinningar og reynslu, keyri mikið þessa vegi.
Ég tek líka fram að ég fyrirlít hraðakstur og allan kappakstur á götum okkar. Ég veit samt að ég átti þetta til þegar ég var yngri og að unga fólkið á erfitt með að hemja sig þegar manni langar að sýna hvað ,,Imprezan" (bara eitthvað dæmi) getur verið snögg. Þetta sama fólk er ekkert að láta þessar áhrifamiklu auglýsingar frá Umferðastofu raska mikið ró sinni. Ef það væri alvara hjá yfirvaldinu að stoppa ofsakstur með tilheyrandi hörmungum þá myndi ég leggja til:

  1. Yngstu ökumenn landsins yrðu skikkaðir til að vera með ökurita í bílum sínum sem lögreglan gæti skoðað við hefðbundið eftirlit.
  2. Aðrir ökumenn, t.d. eldri en 20 ára, yrðu skikkaðir til að vera með sama tæki ef þeir yrðu uppvísir af hraðakstri, x km. yfir hámarkshraða.
  3. Ef menn létu sér ekki segjast taka af þeim ökuskírteinin og síðan beita alveg kinnroðalaust þessum refsiramma með að gera ökutækin upptæk. Það vill nefnilega engin í fyrsta lagi tapa ökuskírteininu og hvað þá bílnum sínum.

Annars átti ég frábæra Verslunarmannahelgi með vinum og kunningjum í Þjórsárveri, góður og rólegur staður.
Á Selfossi stoppaði ég á Kaffi Krús og keypti mér kaffi. Þar sá ég að þeir voru að selja nýja diskinn með Klaufum og ég keypti eintak. ,,Viltu ekki fá það áritað, sagði þjónustustúlkan, ,,ha" sagði ég ,,ert þú í bandinu"? ,,neibb, kokkurinn er söngvarinn" :) Yndislega sveitó.
Mæli með Klaufum þéttir og skemmtilegir.

Mbk.
Sigurjón Sig.


Þjónusta

Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hvað ég er oft hissa á hvað þjónustan hér á Íslandi er víða hræðilega slöpp. Þetta átti einu sinni bara við um hið opinbera og vissa veitingastaði en nú er þetta orðið landlægt vandamál. Það væri efni í mjög langt blogg að nefna dæmi um þetta, það mörg hef ég bara svona á takteinum fyrir til að mynda í síðasta mánuði. Því meir sem ég hugsa um þetta hef ég komist að því að ástæðan er einföld. Hún er ekki bara sú að við búum við ,,náttúrlegt atvinnuleysi" (kannski að hluta) heldur sú að Ísland er aldrei sem fyrr fullt af smákóngum og drottningum, stórum og smáum. Þessi aðall okkar hefur engan áhuga á að þjóna öðrum, eðlilega ekki, vill láta þjóna sér. S.s. því stærri sem þessi hópur verður verður hinn hópurinn minni, s.s. þeir sem nenna að þjóna hinum. Hvað er þá til ráða? Veit það svei mér ekki, kannski bara að skipta um tungumál og taka upp ensku sem mál í búðum oþh og ráða fleiri útlendinga sem hafa alist upp við að bera virðingu fyrir vinnunni sinni. Á þann hátt fengin aðallinn betri þjónustu og gæti ekki kvartað yfir að þetta lið í búðum talaði ekki einu sinni íslensku.

Ágúst Ólafur alþingismaður hefur samþykkt að gerast bloggvinur minn. Ég er nú smá montinn af því. Mér finnst einhvern veginn að sá drengur sé framtíðarleiðtogi þessarar þjóðar, framtíðin mun leiða í ljós hvort ég hafi rétt fyrir mér.

Ég vil nota tækifærið og spyrja Ágúst beint í þessu bloggi (vona að hann lesi þetta...) hver afstaða hans sé vegna þess frumvarps sem liggur fyrir að leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. Þeir sem hafa lesið mitt blogg áður vita hver mín er :)

Mbk.
Sigurjón Sigurðsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurjón Sigurðsson

Höfundur

Sigurjón Sigurðsson
Sigurjón Sigurðsson
Höfundur er Hafnfirðingur sem spilaði lengi handbolta og heldur enn mikið upp á það sport. Golf og borðtennis hafa þó komið sterk inn undanfarið. Núverandi búseta er Club Punta Arabí - Es Canar - Ibiza. Starfa hér fyrir íslenska ferðaskrifstofu, Trans Atlantic. Ágætt hjá okkur í fyrra, gott í ár en öll teikn stefna í mikla aukningu á næsta ári. Höfundur hefur lokið prófi í viðskiptafræði BSc. og er með próf fyrir lengra komna í spænsku. Höfundur hefur komið víða við í sínu lífi og mörg verkefni liggja að baki, allt skemmtilegt bara misskemmtilegt. Njótið hvors annars :)
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Auswitsch, götumynd af gamla hlutanum
  • Auswitsch, nr. 2
  • Auswithsch, hvaða merki bar fólk
  • Herbergið í Krakow
  • Hótelsvítan í Varsjá

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband