Að vinna heima.

Ég er einn af þeim sem er með skrifstofu heima. Fyrir mig eru það forréttindi en ég veit að það eru margir sem eru ekki á sama máli. Mér finnst æðislegt að vakna og ,,atontast" (spænska, estar atontado = vera kjánalegur) framúr og skutla kaffi í gang. Ég er eins og ,,zombie" fyrir fyrsta kaffibollann, labba stundum á og rek mig reglulega í hluti oþh.
Eftir þennan fyrsta bolla, sem ég akkúrat núna á, þá kemst í í fókus og byrja að vinna.
Það að þurfa ekki að byrja undir sturtunni, fara út í kuldann og morgunumferðina, finnst mér alveg stöngin inn.

Nú eru "Klaufarnir" í græjunum, ,,höldum hringinn nú" og ég að komast í góðan gír til að gera góða hluti í dag.

Njótið dagsins.

Mbk.
Sigurjón Sig.

es. Mér fannst fínt að lesa að september hefði verið úrkomumesti mánuður á Íslandi síðan 1887, mér fannst nefnilega svo til alltaf vera rigning í september...

 


Þýskaland 87-88

Ég bjó í Þýskalandi frá ca. júní 87 - ca. apríl 88. Ég fór til Þýskalands til að spila handbolta.
Tímabilið á undan hafði ég náð þeim árangri að verða markakóngur í deildinni hér heima, náði að skora um 8 mörk að meðaltali í leik eða 133 mörk alls.
Ég var 21 árs og allt í einu mjög eftirsóttur fyrir utan Ísland. Ég fékk alls konar tilboð en mig langaði mest til Þýskalands og þangað fór ég þrátt fyrir að allir hugsandi menn hafi ráðlagt mér að bíða, að bíða eða þolinmæði er ekki eitthvað sem ég fékk í vöggugjöf frekar en flestir í minni ætt.

Liðið mitt hét/heitir TUS Schutterwald og spilaði í 2. Bundesligu suður.
Til upplýsinga þá eru gríðalega margar deildir í handboltanum í Þýskalandi. Bundesliga þýðir deild sem nær inn á öll fylki (Bundesland) sem sagt t.d. ekki sýslu - eða héraðsskipt. Þýskaland skiptist s.s. upp í fylki. Flestir þekka t.d. Bayern og staðurinn sem ég bjó í, s.s. Schutterwald, tilheyrir Baden Wurttemberg fylkinu. Baden Wurttemberg er ca. 35.800 km2 (Ísland ca. 103.000) og er þriðja stærsta fylki landsins, aðeins  Bayern og Niedersachsen eru stærri. Baden Wurttemberg er líka í 3ja sæti er kemur að fólksfjölda, með ca. 10.7 milljónir íbúa (Ísland er s.s. með ca. 2,8% af íbúafjölda þessa fylkis).
Þannig að þegar er talað um ,,Bundesliguna" í Þýska handboltanum er átt við deild sem nær yfir öll ,,Bundeslönd". Síðan kemur 2. Bundesliga norður og suður sem nær þá yfir 50% norður & 50% suður af landinu. Þar á eftir kemur Regional Liga (minnir mig) og síðan niður amk. 6 deildir eða fleiri.
Iðkendur á handbolta í Þýskalandi voru ca. 6 milljónir þegar ég bjó þar fyrir 20 árum. Ef við setjum á það 2% vöxt í 20 ár þá eru iðkendur í dag ca. 9 milljónir, held að vísu að rétt tala sé nær 18 milljónum.

Það var gott að búa þarna. Vingjarnlegt fólk og milt veður. Í byrjun var þetta frekar fyndið því mín menntaskólaþýska var nú ekki að virka þarna mjög vel og enskukunnátta þeirra við 0%. Málið er að á þessu svæði talar fólkið mállýsku sem er ekki ólík ,,Svissnesku þýskunni", úff hvað þetta flækti málið í byrjun. ,,was sag´s" "was mach´s" "wo geh´s" "wo ist mine Jacke" ofl ofl. (erfitt að skrifa mállýskur :)
Háþýska :> "was sagst du" "was machst du" "....

Þarna kynntist ég fólki sem lifði með reglum og venjum sem við Íslendingar eigum ekki gott með að skilja og þar skilur kannski á milli Þjóðverja og annnarra þjóða yfir höfuð og hefur gert það að verkum að frá því að vera bombaðir í tætlur fyrir ca. 60 árum eru þeir aftur orðnir ráðandi ríki í Evrópu, geri aðrir betur.
T.d. hlutir eins og að húsmóðirin fari á fætur kl. 06.30 til að fara í bakaríið, ekki á sunnudögum, alla daga nema sunnudaga. Þá er nýtt brauð á borðum í morgunmatnum. ,,Ég veit ekki hvað það er að sofa lengur en til kl. 08.00" sagði framkvæmdastjóri félagsins Hr. Heuberger við mig einu sinni. Heuberger lést fyrir nokkrum árum úr blóðkrabba, blessuð sé minning hans.
Þáverandi forseti félagsins, Gehardt Junker, hafði komið sér og sínum vel fyrir. Þegar hann byrjaði að vinna fyrir sér þá hjólaði hann oft 10-30 km til að leita að vinnu. Fyrir vinnuna fékk hann oft greitt með mat. S.s. vann í rafmagni fyrir bónda og bóndinn borgaði með eggjum og kjöti enda voru peningar svo til verðlausir á þessum tíma og verðbólga mæld í þúsundum %.
Gehardt elskaði bíla og mótorhjól og þegar ég var þarna átti hann nokkurn flota af báðu. Hann hló t.d. mikið af þessari ást á þýskum bílum, gaf ekki mikið fyrir merki en mikið fyrir gæði og pældi mikið í þessu. Hann keypti t.d. Lanciu Turbo. Lancian bilaði, einvher tölvuheili sem var "made in Germany", þetta fannst honum drepfyndið. Gehardt var ekta Aríi. Pabbi hans lést í stríðinu í Rússlandi og þegar nasistar höfðu samband við hann um að koma í þetta undaneldismál sagði hann nei takk, sem var fyrir hreina Aría ekkert mál að segja, þeir voru jú herraþjóðin.
Gehardt hafði verið í handbolta í yfir 30 ár og var rétt undir 60 þegar ég var úti. Hann hafði upplifað að spila fyrirrennara þess handbolta sem við þekkjum "Feldhandball".  Feldhandball var spilaður úti á grasi og var mjög vinsæll í Þýskalandi, ca. 55-65. Gerhardt sýndi mér mynd af leik þar sem 22 þúsund manns voru að horfa á leik í Feldhandball, magnað. Á þeim tíma hljóp þessi náungi, Gehardt Junker, 100 mtr. á rétt rúmlega 11 sekúndum.
Gerhardt er líka látinn og blessuð sé minning hans.

Eitt sem ég minnist líka og hugsa oft um þar sem ég er nú hættur að drekka og það er að félagar mínir í Schutterwald DUTTU ALDREI í það. Við fórum og fengum okkur nokkra bjóra en að fara á fyllerí var ekki í myndinni. Ég sá engan af þeim drukkinn, aldrei. Önnur menning önnur hugsun.
Annað sem var mjög áberandi og það var að þegar átti að gera eitthvað eftir æfingu þá gerðu það ALLIR saman, það var ekki spurning um hvað eða hvort menn áttu kannski að vera annarsstaðar eða ekki. Tek það fram að þetta var hálf atvinnumannaklúbbur, enginn leikmaður spilaði bara handbolta, meir að segja ekki ég. Ég kenndi íslensku og lærði fyrir stúdentsprófið mitt.
S.s. ef eitthvað var ákveðið þá voru menn ekki að reyna að tuða og tuða yfir því, það að gera eitthvað félagslegt VAR einn þáttur í því að byggja upp liðið.

Ég átti ekki gott tímabil með Schutterwald. Ég var of ungur og of óþekkur. Stóð mig samt á köflum vel og þá sérstaklega á undirbúningstímabilinu. Sérstaklega þótti mér vænt um að fá að spila gegn gömlu handboltahetjunni minni Pólverjanum Jerzy Klempel en hann spilaði þá með Göppingen. Klempel var ekkert venjuleg skytta það muna þeir sem sáu hann negla í vinklana frá 9-14 metrum í Laugardagshöll gegn landsliðinu og FH. Biggi Finnboga, Kristján Sigmundsson og Óli Ben eru allir gamlir markmenn sem fengu að kynnast því að spila gegn Klempel, væntanlega var hvert skot eins og líkamsárás.
Ég stóð mig s.s. vel í þessum leik, mjög vel, gerði yfir 10 mörk, leikurinn var að vísu  3 x 30 min, sem er ekki óalgengt fyrir æfingaleiki í Þýskalandi á milli liða sem eru með nokkuð stóran hóp. Eftir jólafríið 1987 kom ég út aftur og spilaði æfingaleik gegn liði Sovét og stóð mig vel en á næstu æfingu á eftir fór ég úr lið á þumalputta vinstri handar og þar með var þetta eiginlega búið, náði aldrei neinum takti eftir það. Til gamans þá fór ég úr lið í fótboltadjókleik en fótboltaupphitun er ein helsta ástæða meiðsla handboltamann, það er staðreynd.

Mér þykir vænt um tímann minn í Þýskalandi og þá Þjóðverja sem ég kynntist + þýskuna mína sem er enn bara ansi góð + 9,5 í Stúdentsprófseinkun í þýsku þar af 10 í munnlega prófinu :)

Njótið dagsins, hann er flottur.

Sigurjón Sigurðsson

es. næst skrifa ég um ,,hitt" landið mitt og dvölina þar, s.s. Spán og þá aðallega Baleares eyjarnar, Mallorcu og Ibizu.

 

 

 


Velkomin Gréta...

til okkar í bloggheima :)

Gréta Matthíasdóttir er mögnuð kona og ég hlakka til að fylgjast með því sem hún skrifar.

Mbk og njótið kvöldsins.

Sigurjón Sig.

 


Maður eins og þú........

Ég þakka bloggvinum fyrir afmæliskveðjurnar.

Fyrirsögnin er tilvísun í samtal sem ég átti við einn af kennurum mínum fyrir 19 árum síðan.

Þannig var að ég var í Samvinnuskólanum á Bifröst, skóla sem kenndi mér að læra, takk enn og aftur Jón Sigurðsson og aðrir kennarar mínir á Bifröst þó sérstaklega kannski Jóhanna stærðfræðikennari. Jóhanna kom mér í hóp nemanda sem föttuðu að stærðfræði er BARA vinna og ég fékk 8,00 hjá Jóhönnu (fékk alltaf 5-6 áður) og síðan hef ég ekki fengið lægra í stærðfræði en 8,00 :)

Ísólfur Gylfi Pálmason, seinna alþingismann ofl, kenndi okkur hið magnaða fag Samvinnusögu og Félagsmálafræði. Ísólfur var skemmtilegur og líflegur kennari, sem betur fer því annars hefði ég ekki ,,meikað" samvinnusöguna. Á hverjum föstudegi var síðan fundur á sal þar sem Ísólfur lét nemendur í verkefni s.s. fundarritara, fundarstóra, frummælanda osfrv. Allir voru búnir að fá eitthvað af þessum verkefnum nema ÉG.
Þegar styttist í útskrift fékk ég þetta pínu á sálina og fór að spyrja sjálfan mig hvort honum (Ísólfi) væri kannski bara illa við mig sem ég hélt ekki því við spiluðum af og til badminton saman, Ísólfur vann alltaf, hann var/er mjög seigur í þeirri íþrótt.
Á útskriftardegi ákvað ég bara að fara til Ísólfs og spyrja hann um þetta. Svarið sem ég fékk situr líka í mér: ,,það þarf ekki að aðstoða eða ýta mönnum eins og þér í hlutina, þú sérð um þetta sjálfur", sagði Ísólfur og brosti.

Enn öllum árum síðar er ég að minnast þessa samtals því þrátt fyrir að ég sé núna í góðum gír, fullur af krafti og lífsgleði, þá hef ég átt minn tíma í djúpu þunglyndi og verið mjög vansæll.
,,The point of the story" er að þrátt fyrir að maður haldi eitthvað um einhvern þá þarf það ekki alltaf að vera þannig, líklega oftast heldur maður rangt eða amk ekki alveg rétt.

Það eru líka margir forvitnir að vita hvað ég sé að gera um þessar mundir.
Ein kona spurði mig fyrir nokkrum dögum hvort ég væri fluttur til Ísafjarðar, einhver hafði sagt henni það. Ég sagði henni að þessi kjaftasaga væri bara það góð að ég ætlaði bara að segja já :)

Í dag er ég:
- Nemandi í HR (utanskóla í Spænsku V, viðskiptaspænsku)
- Eigandi og framkvæmdastjóri Prins Valiant ehf (prinsvaliant.is)
- Fjárfestir
- Hluthafi og framkvæmdarstjóri í öflugu sprotafyrirtæki
Læt þetta duga en er samt að gera aðeins meira.

Og jú + er farinn að æfa aftur með A liðinu, verð leynivopn Hauka í vetur, ef öxlin heldur :)

Njótið dagsins.
Sigurjón Sigurðsson


Í takt við tímann.

Ég sá myndina í ,,Takt við Tímann" þegar hún var frumsýnd.
Ég var mjög spenntur því það vill svo til að ég er barasta ansi áberandi í fyrsta atriðinu ,,Fönn Fönn Fönn drauminum".
Ég fór á tónleikana kvöldið áður og þar tilkynnti Ágúst leikstjóri að það yrði tekið upp atriði úr myndinni á stóra sviðinu í Tívolí kvöldið eftir og þeir sem gætu ættu endilega að mæta.
Ég s.s. gat og mætti.
Áður en hafist var handa tilkynnti Ágúst að þeir hefðu sviðið í tvo tíma og laginu yrði rennt 12 sinnum í gegn, sem varð raunin.
Ég hugsaði þá að ég ætla ekki að standa hérna í 12 rennsli á laginu og ekki sjást í myndinni og stóð því frekar framarlega í græna ,,Lacoste" jakkanum mínum :)
Þetta var mjög gaman og synd að Fönn Fönn Fönn dansinn skyldi ekki slá í gegn, kannski og flókinn en við sem vorum þarna höfðum bara gaman af og það var svona ,,Stuðmannahúmor" yfir vötnum.
Þegar ég svo sá myndina í bíó fannst mér hún ekki skora nógu hátt hjá mér, líklega voru væntingarnar of miklar.
Í gær keypti ég mér svo hana loksins á DVD, stóð jú alltaf til að eiga þessa minningu upp í hillu.
Ég verð að segja að mér finnst hún miklu betri núna....... alveg massa fyndin á köflum.

Ég veit heldur ekki hvort ég sé að lesa vitlaust í þetta en það örlar fyrir smá uppgjöri hjá Jakobi Frímanni í vissum atriðum, svona við vorum (eða ég er) pínu misskildir...... veit það ekki. Ég hef að vísu alltaf verið hrifinn af því sem Jakob hefur gert að vísu mishrifinn en hann er fagmaður.

Eggert fer auðvitað á þvílikum kostum sem Dúddi að maður getur stundum ekki meir. Hann gerir (þeir) svo mikið stólpagrín af þessum ,,kuklurum" sem eru að selja auðtrúa fólki einhverjar bulllausnir að það er alveg stöngin inn.

Egill Ólafsson er auðvitað kóngur í ríki sínu.

Á aðra leikara ætla ég ekki að minnast, þetta átti ekki að vera nein bíógagnrýni en unga gengið með Höskuld er líka að skora hjá mér.

Takk Stuðmenn eða ,,thank you very many" og "þetta er enginn  peningur fyrir þetta verð".

Mbk.
Sigurjón Sigurðsson

es. ég á afmæli í dag, 1. okt. JIBBÝ................................ sendi öllum afmælisstemmningu.


Þakkir helgarinnar og fleira.

Mér þætti vænt um að lesa athugasemdina frá Pétri Óskarssyni eða frá Pétri ,,formanni" eins og hann var kallaður á okkar unglingsárum. Pétur var einn af ,,genginu" sem kom oft í partý á Norðurvanginn og þekkti vel til hjá Pétri Bergman.
Takk Pétur fyrir hreinskilna athugasemd, þannig er best að tala.

Í gærkvöldi var stóra ballið með Stefáni Hilmarssyni og félögum á Ásvöllum. Þetta tókst alveg stöngin inn og mig langar að þakka öllum sem að því verkefni komu fyrir góða samvinnu og fagmennsku. Einnig vona ég að allir þeir sem komu hafi skemmt sér vel.

Eitt skyggði þó á fyrir mig og það var þegar ég var að fara vék sér að mér drukkinn maður og jós yfir mig einhverri vitleysu. Kannski á maður ekki að vera hafa fyrir því að tala um eitthvað sem drukknir einstaklingar bulla en ég finn mig samt knúinn til að útskýra málið EITT SKIPTI FYRIR ÖLL:

Ég rak lengi Hraunholt í Hafnarfirði sem var einkafyrirtæki í veislu - og veitingageiranum. Í mörg ár kvartaði ég við bæði Sýslumann og Hafnarfjarðarbæ varðandi þá sali sem fylgdu íþróttahúsum og voru notaðir til veitingarekstrar. Það virðist sem flestir eigi erfitt með að skilja málið en það snýst um einfalda viðskipta - og hagfræði.
Ef þú ætlar að stofna fyrirtæki t.d. veitingastað þá þarftu að finna peninga til þess. Peningarnir koma frá öðru af tvennu eða oftast samblandi þessara tveggja leiða:
a) Eigið fé
b) Lánsfé
Sá hluti sem heitir eigið fé eru þá þínir eigin peningar. Á þá peninga þarf að gera arðsemiskröfu sem er að algjöru lágmarki sú ávöxtun sem hægt er að fá sem tryggasta, t.d. ríkisskuldabréf, t.d. ca. 7-8%. Flestir gera nú hærri kröfu á sína peninga en það og ekki er óalgengt að miða nú við ca. 12-15%.
Til að ná þessu markmiði þarf að setja einhverja x álagningu á vöruna.

b) Lánsfé er ekki ókeypis og sérstaklega ekki á Íslandi í dag þar sem vextir eru svo háir að annað eins þekkist ekki á vesturlöndum, eftir þvi sem ég veit best.
Til að geta borgað af lánunum + vext og verðtrygginguna (s.s. hækkun vegna verðbólgu) þarf x álagningu.

EN þegar menn fá til rekstrar fjárfestingu sem engin krafa er gerð á og verið er að stússast með peninga sem tilheyra engum sérstökum, peninga sem Pétur Blöndal nefndi ágætlega ,,einskyns manns fé", þá er komið á rekstrarform sem er í raun eins og niðurgreidd þjónusta og ENGINN aðili í einkarekstri hefur möguleika á að keppa við slíkt, UM ÞAÐ SNÝST MÁLIÐ.

Einu sinni ræddi RÚV þetta við mig og þeir misskildu þetta líka og HÖFÐU engan áhuga á að leiðrétta það þrátt fyrir að ég hringdi í fréttastjórann, ,,sé enga ástæðu til að leiðrétta neitt" sagði hann.
Málið var að fréttakonan kom og talaði við mig og ég útskýrði mitt mál en svo hóf hún sína frétt í EGILSHÖLL, sem er akkúrat það sem ÉG var ekki að gagnrýna, það var miður.
S.s. ég styð atburði í miklu hófi á gólfum íþróttahúsa þar sem enginn einkaaðili hefur hefur slíku húsnæði að ráða, s.s. atburði eins og á Ásvöllum, tónleikar fyrir rúmlega 1.000 manns +. Stórar árshátíðir oþh.

Þessi drukkni einstaklingur sem réðst að mér í gær fór líka að segja að ég sæi um þetta og svo hefði veitingmaður úr Reykjavík fengið að selja veitingarnar. Rangt eins og allt sem þessi blessaður ógæfumaður sagði. Ég kom ekki nálgæt að semja við einn aðila vegna þessa hófs í gær en tók að mér 5 daga markaðsáhlaup fyrir félagið mitt til að gera mitt besta til að fá fólk til að mæta og skemmta sér.

Njótið kvöldsins, lífið er yndislegt :)

Sigurjón Sigurðsson.

 


Meira vegna andláts Péturs Bergmans.

Annar æskuvinur minn sem var mikið með mér og Pétri var að hringja í mig og er alveg í sjokki. Ég sagði honum að ég væri bara ekki í neinu sjokki því þegar menn leika sér að eldinum eins og blessaður Pétur gerði þá munu menn brenna sig á endanum og endinn er kistubotninn eða massíf hjálp, sem er til.

Við þá sem lesa þetta og eru að spá í að drekka eða dópa sig í hel, og sjá það í einhverjum ,,drama" hyllingum, langar mig að segja það sama og einn góður geðlæknir skrifaði einu sinni ,,það er ekki aftur snúið til lífsins þegar þú ert dáinn" OG möguleikinn á að stúta sér fer ekki neitt, hann er alltaf til staðar hjá öllum sem hafa áhuga á að kveðja þennan heim fyrir tímann.

Njótið dagsins og ég ætla að segja eitt sem ég hélt að ég myndi aldrei segja, áfram Víkingur og ég vona að vinur minn Höskuldur Eiríksson skori sigurmarkið :)

Mbk.
Sigurjón Sigurðsson


Látinn er vinur minn Pétur Bergman.

Mig langar að minnast æskuvinar míns hér en ekki á síðum mbl.

Pétur Bergman Eyjólfsson eða Pétur ,,Lakkrís" eins og hann var oft kallaður ólst upp í Norðurbænum í Hafnarfirði. Hann var fæddur 1965, ég 1966, og við bjuggum rétt hjá hvor öðrum og okkar var snemma vel til vina.
Pétur var þá skemmtilegur og flottur strákur sem hefði getað ,,sigrað heiminn" en í staðinn þá sigraði Bakkus hann.
Afi Péturs og amma voru stofnendur Lakkrísgerðarinnar Drift í Hafnarfirði og þar vann Pétur öll sín uppeldisár ásamt því að núna seinni ár vann hann hjá nýjum eiganda Lakkrísgerðarinnar Helga í Góu.
Pétur kunni sko ekki bara að búa til lakkrís og vera skemmtilegur, hann var snarpgreindur og það vissu þeir sem voru með honum í skóla, bæði í Versló og í Samvinnuskólanum á Bifröst og auðvitað við vinir hans og kunningjar.
Í Samvinnuskólanum var Pétur á þeim tíma sem Jón Sigurðsson hækkaði skólann upp þannig að ég held að varla nokkur nemandi hafi verið lengur á Bifröst en Pétur Bergman.

Hvíl í friði kæri vinur.

Ég sendi aðstandendum samúðarkveðjur.

Sigurjón Sigurðsson


Betra verð á tónleikana um helgina.

Þeir sem vilja koma og skemmta sér á Ásvöllum um helgina með Stórhljómsveit Stefáns Hilmarssonar geta hringt í Helgu Þórðardóttur í síma 860-2200 og fengið miða.
Þeir sem kaupa 8 + fá 10% afslátt.

Annars eru miðar seldir á Ásvöllum og hjá Lyng Strandgötu og er almennt miðaverð mjög sanngjarnt eða kr. 1.900

Stórhljómsveitin er skipuð þeim:
 Stefán Hilmarsson, söngur
 Guðmundur Pétursson, gítar
 Jóhann Hjörleifsson, trommur
 Friðrik Sturluson, bassa
 Þórir Úlfarsson, hljómborð
 Jagúarbræður, blástur og Funky stemmning
Aðrir söngvarar:
Eyjólfur Kristjánsson
Birgitta Haukdal
Björn Jörundur

Stemmingin er rjúkandi og því skora ég á fólk að tryggja sér miða í tíma.

Mbk. og sjáumst á dansgólfinu :)

Sigurjón Sig.


Róleg :)

Hann er grínisti og er auðvitað að grínast með þetta, hver dáist af drykkjuþoli? Það er svo fáránlegt að ég er bara ,,lol".

Sagt er um eina stúlku sem er í ágætri stöðu "hún drekkur eins og sjóari" vá hvað hún þolir. Þetta er sagt en og en bakvið tjöldin hafa menn áhyggjur og engum finnst þetta í raun töff og kúl, nema kannski henni.
Áfengi fylgir mikil ábyrgð, við í ,,stóra leynifélaginu" vitum það betur en nokkur annar.

Njótið dagsins og ekki missa af Stebba, Eyfa, Birgittu og Birni Jörundi á Ásvöllum n.k. laugardag.

Sigurjón Sig.


mbl.is Dáist að drykkjuþoli Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurjón Sigurðsson

Höfundur

Sigurjón Sigurðsson
Sigurjón Sigurðsson
Höfundur er Hafnfirðingur sem spilaði lengi handbolta og heldur enn mikið upp á það sport. Golf og borðtennis hafa þó komið sterk inn undanfarið. Núverandi búseta er Club Punta Arabí - Es Canar - Ibiza. Starfa hér fyrir íslenska ferðaskrifstofu, Trans Atlantic. Ágætt hjá okkur í fyrra, gott í ár en öll teikn stefna í mikla aukningu á næsta ári. Höfundur hefur lokið prófi í viðskiptafræði BSc. og er með próf fyrir lengra komna í spænsku. Höfundur hefur komið víða við í sínu lífi og mörg verkefni liggja að baki, allt skemmtilegt bara misskemmtilegt. Njótið hvors annars :)
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Auswitsch, götumynd af gamla hlutanum
  • Auswitsch, nr. 2
  • Auswithsch, hvaða merki bar fólk
  • Herbergið í Krakow
  • Hótelsvítan í Varsjá

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband