Ibiza, paradís í Miðjarðarhafinu.

Ég er kominn aftur á fornar slóðir eða til Ibiza á Spáni að taka á móti krökkum frá Íslandi sem eru hingað komin í skóla - og eða vinahópum. Ég tók á móti sama aldri hingað, 89-91, og ég get fullvissað ykkur um að það er enginn munur á ungu fólki í dag og þá. Kannski felst munurinn í að flæði upplýsinga er allt miklu hraðara, Facebook, farsímar o.þ.h. Þessir íslensku krakkar eru vel liðnir hér í Es Canar á Ibiza. Við erum með þau þar á hóteli sem heitir Club Punta Arabí. Club Punta Arabí er ekki beint hótel heldur sumarklúbbur fyrir ungt fólk, eins og lítið 1000 m2 þorp sem tekur 1000 manns. Hér fær ungt fólk að vera ungt fólk og það er skilningur á því að ungt fólk sem er skemmta sér hefur stundum hátt. Hér er öflug íþrótta – og skemmtidagskrá frá morgni til kvölds. Á Club Punta er 1000 manna diskótek og Snakk bar fyrir utan sem er opinn jafn lengi og Ocean diskótekið á Punta Arabí. Punta Arabí er ekki undir stjörnugjöf hótela heldur undir því sem heitir á spænsku, Club de Verano (CV). Hámarksstjörnugjöf slíkra klúbba eru 3 stjörnur og Club Punta Arabí hefur 2.
Sumir krakkarnir sem koma hingað segja mér stundum þvílíkar tröllasögur sem þau hafi heyrt um Ibiza á Íslandi, stundum verð ég orðlaus. Þær eiga það að vísu allar sameiginlegt að enginn veit nákvæmlega hver sagði þær og oftast er mér sagt að þær komi frá einhverjum sem þekkir einvhern sem þekkir einhvern sem..... Ég hef amk ALDREI hitt neinn Íslending sem talar með þessum hætti um Ibiza sem hefur í alvöru komið hingað í frí. Svona sögur geta komið frá samkeppnisaðilum eða bara einhverjum sem þykir gaman að dansa við Gróu frá Leit, ég skal ekki segja og í raun er mér alveg sama. Það sem skiptir mig máli er að frá okkur fer heim ungt fólk með góðar hugmyndir, minningar og bros á vör frá eyjunni hvítu.
Ibiza er hluti af Baleres fylkinu á Spáni, eitt af 17 sem mynda konungsríkið Spán. Höfuðborg Baleares er Palma á Mallorca. Ibiza er þriðja stærsta eyjan af þeim 5 sem mynda Baleares, 572 km2, en sú næst fjölmennasta, ca. 120 þúsund íbúar. 70% þeirra eru Spánverjar en restin eru útlendingar með fasta búsetu hér. Á hverju ári sækja ca. 2 milljónir ferðamanna Ibiza heim. Mest umferð um flugvöllin hér er um 140 þúsund farþegar á viku. Það sem fæstir á Íslandi vita er að um 30% af þeim sem heimsækja Ibiza heim á hverju sumri er fólk á miðjum aldri og yfir. Fólk með fjölskyldur sem velur sér þau svæði á eyjunni sem er fyrir þennan hóp, og þau svæði eru fleiri en fólk heldur. Á eyjunni er einn góður 18 holu golfvöllur og á sama stað er einn 9 holu æfingavöllur.
Ibiza er eins og við þekkjum Stór Reykjavíkursvæðið, allar vegalengdir frekar stuttar og aðgengilegar. Flottir hlutir eru aldrei langt undan. Spurningin er hvað fólk vill gera. Viltu vera í einu skrautlegasta og flottasta mannlífi í Evrópu, kíkja þar á kaffihús, bari, veitingastaði, verslanir eða bara njóta þess að vera til? Kíktu þá í gamla bæinn í Ibiza borginni (65 þúsund íbúar) í Sa Penya og La Marina hverfin. Hluti af þessum hverfum eru á heimsminjaskrá Unesco. Þar er einnig að finna svæði sem eru afar „Gay vænt“ með tilheyrandi skrautlegu, vinalegu og skemmtilegu fólki.
Viltu heimsækja flottar, mannmargar strendur? Kíktu þá á Playa d´en Bossa eða hina frægu Salinas strönd. Viltu kíkja á rólegar víkur og taka daginn mjög rólega á ströndinni kíktu þá á..... get ekki byrjað að telja. Viltu vera nakin (n) í sólinni? Kíktu þá á fyrstu opinberu nektarströnd Evrópu, 1977, Es Cavalllet.
Viltu upplifa sólsetrið með fjölda manns sem er mætt að „chilla“ við sólsetrið á Café Mambo í San Antonio? Café Mambo er oft með fræga plötusnúða, t.d. verður David Guetta í heimsókn næsta fimmtudag. Saknarðu „gírsins“ í djamminu í 101 Reykjavík? Farðu þá í West End hverfið í San Antonio og þú verður ekki fyrir vonbrigðum ef það var 101 á laugardagskvöldi sem þú varst að leita að.....
Langar þig til að heimsækja flott diskótek? Þá eru hér nokkur þau frægustu sem þú getur fundið:
• Pachá (1973) (opið allt árið en ekki á fullri getu á veturnar og bara um helgar)
• Amnesia
• Privilega (stærsti klúbbur í heimi, 14 þúsund manns)
• Space
• o.fl.
Það eru ekki margir staðir til þar sem þú getur byrjað vikuna, mánudagskvöld, á því að fara á TIESTO á Privilege ásamt 14 þúsund öðrum. Síðan kíkt á David Guetta á Pachá fimmtudaginn eftir, ásamt 5 þúsund öðrum. Taka skal fram að þessi klúbbar eru ekki ódýrir, bæði dýrt inn og dýrt að drekka. Þeir geta þetta, vita það og gera það.
Ertu ekki fyrir klúbbatónlist og vilt heyra alvöru lifandi tónlist? Kíktu þá hinn frábæra Teatro Peyrera Ibiza. Algjör snilld. Staður sem er opinn allt árið og er mjög vinsæll hjá eyjarskeggjum. Langar þig að taka salsa kvöld? Kíktu þá á Azúcar Moreno í San Antonio eða Salsa staðinn í Figuretas (man ekki nafnið).
Langar þig að fara í sjósport? Sjóskíði, Banana, Wake board, Parasailing, Jet Ski eða leigja þér lítinn hraðbát? Kíktu þá til Césars í víkinni S´argamassa. „Laid back“ andrúmsloft og mikil fagmennska. Þar er líka góður nuddari á ströndinni.
Ertu hestamanneskja og vilt fara á bak á spænskum hestum, ekkert mál. Ertu fyrir hjólreiðar? Mikið af keppnishjólreiðafólki á eyjunni. Viltu taka smá „hiking“? Fullt af gönguleiðum á litlu fjöllin hér. Hæsta fjall Ibiza er Sa Talaia, ca. 450 mtr. hátt.
Viltu kynna þér söguna, menninguna til forna eða best viðhaldið virki frá 16 öld í Miðjarðarhafinu? Kíktu þá í Dalt Vila (efri bær) sem er 3000 m2 svæði innan virkisveggja í Ibizaborginni. Virkið er á heimsminjaskrá Unesco síðan 1999 og aðgengilegar upplýsingar eru út um allt á 4-5 tungumálum. Á Ibiza er líka eitt merkasta safn Púnverskra minja.
Saltnámur Ibiza, Las Salinas, eru heimur út af fyrir sig. Saltið var gull Ibizabúa í margar aldir. Í dag er enn framleitt salt á eyjunni, um 50 tonn á ári. 10% af þessari framleiðslu fer í borðsalt en 90% fer sem götusalt til Norður Evrópu. Vinnsluaðferðirnar hafa að sjálfsögðu breyst í gegnum tíðina og í dag er þetta meira eða minna unnið með vélum en ekki af verkamönnum, eins og á árum áður. Salinas svæðið er núna þjóðgarður.
Ég hef í þessu bloggi bara aðeins drepið á þeim mörgu hlutum sem tengjast Ibiza, þessari frábæru paradís hér í Miðjarðarhafinu.
Ef þið viljið kíkja hingað þá getið þið fengið allar upplýsingar um eyjuna hjá Trans Atlantic (www.transatlantic.is)
Ég ætla að enda þetta blogg með að leyfa ykkur að njóta þess að lesa mjög skemmtilega grein um Ibiza sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1977 er Íslendingar byrjuðu fyrst að fara til Ibiza. Greinina skrifaði Gísli Sigurðsson blaðamaður.

Ibiza
Eyjan hvíta hefur hún verið nefnd eftir byggingunum, en Ibiza er græn yfir að líta, gróðursæl og friðsæl. Þar er eitthvað fyrir alla, tízkudvalarstaður hippa, Paradís venjulegra túrista og í seinni tíð eru Íslendingar þar á meðal.
Það þykir sjálfsagður hlutur nú orðið og heyrir eiginlega til lífskjaramarki númer eitt að geta árlega velt sér svo sem tvær til þrjár vikur í makindum á þeim stöðum, sem almenningur nefnir einu nafni Sólarlönd.
Margir þekkja víst Mallorca heldur skár en Vestfjarðakjálkann, Fljótsdalshéraðið, að ekki sé nú talað um Ódáðahraun. Nýlega hafði ég spurnir af hjónum, sem voru að fara í fjórtánda sinn til Mallorca í sumarleyfinu sínu. Ekki hafa þau kvalizt af forvitni eða nýjungagirni. Þeir eru til — og ófáir raunar, sem búnir eru að kemba þessar sólarstrendur einu sinni eða oftar: Costa del Sol suður í Andalúsíu, Kanaríeyjar, Lignano á Adríahafsströnd ítalíu, og í minni mæli. Algarve í suðurhluta Portúgal og Glyfada-ströndina i námunda við Aþenu. Allt er þetta dálítið hvað öðru líkt, þegar til kastanna kemur. Gildi ferða af þessu tagi er þar fyrir ótvírætt og helgast ekki hvað síst af þeirri tilbreytingu, sem nauðsynleg er hverjum manni. Þarna kynnast margir önnum kafnir Íslendingar þeirri hvíld, sem þeir þekkja varla af afspurn heima fyrir, hitinn á sinn þátt í því, enginn sími, engir fundir og kapphlaup við klukkuna. Menn kynnast þvi að geta borðað góðan mat fyrir brot af því sem kostar að snæða á veitingahúsi heima og margir eiga full erfitt með að láta þetta ódýra vín ódrukkið. Í sumar var hamrað á þvi slagorði í auglýsingum, að nú ætti maður að koma með til Ibiza og ég lét vitaskuld ekki segja mér það tvisvar og hefði þó kannski verið nær að slást í för með Þjóðverjum og Spánverjum, sem hingað voru komnir til að sjá Öskju og
Herðubreiðarlindir með eigin augum í þeirri von að Askja og Herðubreiðar lindir verði ögn um kyrrt á sínum stað, var gengið um borð í Flugfélagsþotu á úthallanda degi uppúr réttum og lent í myrkri eftir fjögurra tíma flug á þeirri eyju sem menn nefna nú Ibiza og er í Baleariska eyjaklasanum í Miðjarðarhafinu; spölkorn vestur af Mallorca. Þarna var þá ein paradísin enn, græn og gróðursæl yfir að líta og hafið að sjálfsögðu blátt. Meira að segja ku vera alveg sérstakur blámi á Miðjarðarhafinu, sagði Jón heitinn Engilberts mér og lygndi aftur augunum. „Nú er ég að synda í Miðjarðarhafinu", sagði Jón og tók sundtökin þar sem hann sat í stólnum heima hjá sér. Aftur á móti hefur ævinlega vafizt fyrir mér að sjá þennan sérstaka bláma öðrum bláma fegurri, sem rómantikerar á síðustu öld gerðu frægan, þegar Capri var tízkustaður kóngafólks. Sé himinninn heiður og blár, verður hafið venjulega blátt líka, það er allt og sumt.
Ibiza er á stærð við Reykjanesskagann, gróðursæl með afbrigðum, alsett hæðum og fjöllum og undirlendi sáralítið. Ekki er mannfjöldanum til að dreifa; íbúarnir aðeins 40 þúsund (2010 ca. 120 þús.) og þar af búa 17 þúsund í Ibizaborg (2010, ca. 65 þús.), sem er stærsti bærinn og höfuðstaður eyjarinnar, að hluta ævagamall og skemmtilegur. Verður nánar vikið að því síðar Hinum megin á eyjunni stendur bærinn San Antonío við fallegan fjörð, þar búa 8 þúsund manns (2010, ca. 24 þús.), en aðrir bæir eru mun minni og dreifðir viðsvegar um eyjuna. Innfæddir tala að sjálfsögðu spænsku, en þó öllu fremur sín á milli mállísku sem nefnd er ibicenco (nátengd Katalónsku). Þjónusta við erlenda ferðamenn er vaxandi atvinnugrein og talsverður fjöldi hótela upp risinn í Ibizabæ, San Antonio, St. Eulalia, Cala Portinatx og víðar Allt er það þó smátt í sniðum á móti þeim stóriðnaði í túrisma sem fjöldi Íslendinga þekkir af eigin raun frá Mallorca.
Á Ibiza er enginn yfirþyrmandi mannfjöldi, engin stórborgarumferð Flest er þar þægilegt, ljúft og létt og staðurinn kjörinn fyrir þá, sem vilja afslöppun, næði og hvíld. Ekki svo að skilja að þeir sem vilja snúa við sólarhringnum og ástunda næturglaum og skálaglam geti ekki fundið neitt við sitt hæfi og má i því samhengi minna á að lbiza er einmitt eftirlætisstaður hippa úr nærliggjandi löndum.
Ánægjan af dvöl á Ibiza er eins og annarsstaðar meðal annars fólgin í að kynnast þjóðlegum réttum og ævagömlum matarkúltúr. Um það eru flestir sammála nema Íslendingar, sem reiða með sér saltfisk að borða í sumarleyfinu.
Vissulega minnir Ibiza mest á Mallorca. Þó er þar allt með öðrum brag og flest kemur sem betur fer spánskt fyrir sjónir. Sé komið í þorpin vítt og breitt um eyjuna, sem flest heita eftir kaþólskum dýrlingum, blasir við hvernig alþýða manna lifir og hefur búið til þessa dags. Þar eru engin hótel og hvorki túristar né það hvimleiða sjoppufargan með samskonar drasli, sem fylgir ferðamannastöðum á sólarströndum. Húsin eru yfirleitt hvítkölkuð uppá spánskan máta og kerlingarnar svartklæddar að vanda og skorpnar í framan eins og gamalt bókfell. Þegar betur er að gáð má sjá, að æði margar bera mislitar slaufur, sem kunngerir félagslega stöðu þeirra. Ég man nú ekki litina nákvæmlega lengur, en ekkja í sorg eftir mann sinn ber svarta slaufu, en setur svo upp slaufu í ákveðnum lit, þegar hún er í því standi að vilja giftast aftur. Það eru óneitanlega gagnlegar upplýsingar fyrir lysthafendur. Aftur á móti skyldu menn forðast að fara á fjörur við þær konur, sem bera bláa slauffu; þær eru nefnilega giftar og meira að segja hamingjusamar í hjónabandinu. Varla er það þorpskrýli til, að ekki sé þar vínstofa og alltaf er svo að sjá, að menn hafi góðan tíma til að sitja þar langtímum yfir glasi af San Miguel eða lager. Þessir staðir eru í rauninni félagsheimili, þar sem fólkið hittist daglega og blandar geði. Aftur á móti er minna um sjoppur samkvæmt íslenzku formúlunni, þarsem hávaðasamir unglingar hamast við að reykja í laumi og troða sem mestu í sig af kóki og prinspóló í þjóðbraut.
Sögulegar staðreyndir verða að mestu látnar liggja milli hluta í þessu greinarkorni, enda hefur mér virzt, að hinir hefðbundnu fróðleiksmolar fararstjóranna fari svona yfirleitt inn um annað og út um hitt, þegar blessuð söguþjóðin er komin þangað suðrúr að slappa af. Þetta sker á sína sögu eins og önnur sker, en ekki veit nokkur lifandi sála um upphaf byggðar þar og ekki uppvaktist þar neinn Ari fróði á liðnum öldum að skrá fróðleik um landnám.
Í örstuttu máli: Það er í skrásetningu „Diodoros nokkurs Siculos í 3000 ár“ að eyjarinnar er fyrst getið fyrir að þar búi þá „..barbarar", sem þýddi nokkurnveginn það sama og útlendingar á máli Rómverjans, og þar er borg, kölluð Ebusos og er það nýlenda frá Karþagó, segir hann. Aðrar heimildir nefna, að Karþagómenn hafi reist Ibizaborg árið 654 fyrir Krist og höfðu þeir einkum og sér í lagi ágirnd á salti, sem var og er auðtekið við strendur eyjarinnar (Gísli Sigurðsson, Lesbók Mbl, 27. nóvember 1977).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurjón Sigurðsson

Höfundur

Sigurjón Sigurðsson
Sigurjón Sigurðsson
Höfundur er Hafnfirðingur sem spilaði lengi handbolta og heldur enn mikið upp á það sport. Golf og borðtennis hafa þó komið sterk inn undanfarið. Núverandi búseta er Club Punta Arabí - Es Canar - Ibiza. Starfa hér fyrir íslenska ferðaskrifstofu, Trans Atlantic. Ágætt hjá okkur í fyrra, gott í ár en öll teikn stefna í mikla aukningu á næsta ári. Höfundur hefur lokið prófi í viðskiptafræði BSc. og er með próf fyrir lengra komna í spænsku. Höfundur hefur komið víða við í sínu lífi og mörg verkefni liggja að baki, allt skemmtilegt bara misskemmtilegt. Njótið hvors annars :)
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Auswitsch, götumynd af gamla hlutanum
  • Auswitsch, nr. 2
  • Auswithsch, hvaða merki bar fólk
  • Herbergið í Krakow
  • Hótelsvítan í Varsjá

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband